Enski boltinn

Ekkert partý þótt að Liverpool vinni bikarinn á morgun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jurgen Klopp faðmar hér Ibrahima Konate eftir að Liverpool komst í úrslitaleikinn í Meistaradeildinni.
Jurgen Klopp faðmar hér Ibrahima Konate eftir að Liverpool komst í úrslitaleikinn í Meistaradeildinni. AP/Alberto Saiz

Leikmenn Liverpool fá ekkert að halda sigurpartý annað kvöld þótt að þeir vinni Chelsea í úrslitaleik enska bikarsins.

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, gaf það út á blaðamannafundi fyrir leikinn að leikmennirnir fá ekki að fagna sigri um kvöldið.

Liverpool á enn möguleika á fernunni þótt að enska deildin sé nánast úr myndinni eftir tvo stórsigra Manchester City í röð og jafntefli Liverpool á móti Tottenham.

Klopp hefur aldrei unnið enska bikarinn en Liverpool vann hann síðast árið 2006.

„Þegar þú ert að berjast um þrjá eða fjóra titla þá er alveg á hreinu hvenær menn mega fagna og hvenær ekki,“ sagði Jürgen Klopp.

„Það er mikið að gera hjá okkur á þessu tímabili en auðvitað verður úrslitaleikur enska bikarsins aldrei eins og hver annar leikur. Þetta er sérstakur leikur og einn af þeim stærstu á þeirra ferli. Við viljum njóta stundarinnar og koma með bikarinn til fólksins okkar,“ sagði Klopp.

„Við gátum ekki fangað sigri eftir að við unnum enska deildarbikarinn af því að við spiluðum þremur dögum síðar. Ef við vinnum enska bikarinn þá er leikur á móti Southampton þremur dögum síðar,“ sagði Klopp.

„Við fórum í sigurskrúðgöngu hjá [Borussia] Dortmund sem var stór. Nú mætum við Southampton í stað þess að halda slíkan fögnuð. Ef þú hefur ekki haft gaman af þessu tímabili þar til núna þá get ég ekki hjálpað þér,“ sagði Klopp.

Bikarúrslitaleikurinn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2 á morgun. Upphitun hefst klukkan 15.15 en leikurinn klukkan 15.45.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×