Enski boltinn

Bikar á loft á Old Trafford í gær fyrir framan 67 þúsund manns

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hetjan Alejandro Garnacho lyftir bikarnum eftir sigur átján ára liðs Manchester United í úrslitaleiknum í gær.
Hetjan Alejandro Garnacho lyftir bikarnum eftir sigur átján ára liðs Manchester United í úrslitaleiknum í gær. Getty/Tom Purslow

Manchester United stuðningsmenn fjölmenntu á Old Trafford í gærkvöldi og þar höfðu þeir ástæðu til að fagna sem aðallið félagsins hefur ekki boðið þeim oft upp á í leikjum þess á núverandi tímabili.

Aðallið United hefur ekki unnið titil í fimm ár og ekki enska meistaratitilinn í níu ár en það fór bikar á loft á Old Trafford í gær.

Unglingalið Manchester United vann þá enska bikarinn eftir 3-1 sigur á Nottingham Forest í úrslitaleiknum. Þetta var í ellefta skiptið sem unglingalið félagsins vinnur þessa keppni en félagið hafði ekki unnið hann í ellefu ár. Liðin eru skipuð af leikmönnum sem eru yngri en átján ára.

Það mættu alls 67 þúsund manns á leikinn sem er mesti fjöldi áhorfenda á unglingaleik United sem var áður 38.187 frá árinu 2017.

Hinn sautján ára gamli Alejandro Garnacho skoraði tvívegis í leiknum þar af annað þeirra úr umdeildri vítaspyrnu. Fyrirliðinn Rhys Bennet hafði skorað fyrsta markið í leiknum.

Margir leikmenn úr aðalliðið United voru meðal áhorfenda, menn eins og Phil Jones, Scott McTominay, Bruno Fernandes, Eric Bailly og David de Gea en þar voru líka Sir Alex Ferguson, gamli miðjumaðurinn Nicky Butt og gamli framherjinn Dwight Yorke.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×