Enski boltinn

Nær engar líkur á að City og Liverpool spili hreinan úrslitaleik um titilinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardiola grínaðist með Trent Alexander-Arnold í síðasta leik Manchester City og Liverpool.
Pep Guardiola grínaðist með Trent Alexander-Arnold í síðasta leik Manchester City og Liverpool. Getty/Michael Regan

Það virðist ekkert lið ráða við særða Manchester City menn því eftir klúðrið í Meistaradeildinni á dögunum þá rúllar liðið nú upp hverju liðinu á fætur öðru í ensku úrvalsdeildinni.

City hefur fyrir vikið ekki aðeins náð þriggja stiga forskoti á Liverpool á toppnum heldur hefur liðið nú einnig stórbætt markatölu sína og er komið með gott forskot þar líka.

City hefur unnið tvo síðustu leiki sína með markatölunni 10-1 en á sama tíma hefur Liverpool gert jafntefli og rétt marið 2-1 sigur á Aston Villa.

Fyrir leikinn í gærkvöldi, þar sem Manchester City vann 5-1 útisigur á Úlfunum, þá voru einhverjir enn að velta fyrir sér möguleikanum á því að Manchester City og Liverpool myndu spila aukaleik um Englandsmeistaratitilinn, hreinan úrslitaleik eftir að öll lið höfðu klárað sína leiki.

Það var nefnilega ekkert svo rosalega fjarlægður möguleiki eða þar til að City tók fjögurra marka stökk í markatölunni í gærkvöldi.

Ef Manchester City og Liverpool enda alveg jöfn, með sama stigafjölda og sömu markatölu, þá þarf að fara fram sérstakur aukaleikur um Englandsmeistaratitilinn því báðir innbyrðis leikir liðanna í vetur enduðu með 2-2 jafntefli.

Fyrir leikinn í gær hefði Liverpool því þurft að vinna upp þriggja marka forskot í markatölu en nú munar sjö mörkum á markatölu liðanna. Með þessum sigri City í gær þá er möguleikinn á hreinan úrslitaleik um meistaratitilinn nánast úr sögunni.

Fyrir stórsigurinn á Molineux í Wolverhampton þá var markatala City 89-21 en markatala Liverpool 89-24. Það voru því möguleikar á að hún endaði nákvæmlega jöfn. Nú er City aftur á móti komið með markatöluna 94-22 eða plús 72 mörk á meðan Liverpool er aðeins með plús 65 mörk.

Fyrir umferðina í vikunni hefði tveggja marka sigur Liverpool og tveggja marka tap City verið nóg til að liðin enduðu alveg jöfn en nú þarf miklu meira til. Í fyrsta lagi þarf sjóðheitt lið City að fara tapa stigum hvað þá að fara að tapa leikjum.

Þetta stóra stökk í markatölu þýðir líka að City þarf eiginlega að tapa stigum í báðum síðustu leikjum sínum svo að Liverpool eigi möguleika á því að komast upp fyrir Pep Guardiola og lærisveina hans.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.