Erlent

Yfirmaður spænsku leyniþjónustunnar rekinn vegna njósnaforrits

Kjartan Kjartansson skrifar
Paz Esteban tók við spænsku leyniþjónustunni CNI árið 2020, fyrst kvenna. Hún hefur nú verið látin taka poka sinn.
Paz Esteban tók við spænsku leyniþjónustunni CNI árið 2020, fyrst kvenna. Hún hefur nú verið látin taka poka sinn. Vísir/EPA

Spænska ríkisstjórnin rak Paz Esteban, yfirmann leyniþjónstunnar, vegna uppljóstrana um að umdeilt njósnaforrit hafi verið notað til þess að njósna um spænska ráðamenn. Esteban var fyrsta konan til að gegna embættinu.

Uppljóstranir kanadísku samtakanna Citizen Lab um að njósnað hafi verið um fleiri en sextíu manns sem tengjast hreyfingu katalónskra sjálfstæðissinna með svonefndu Pegasus-njósnaforriti ísraelska fyrirtækisins NSO Group hrundu af stað atburðarásinni sem leiddi til brottreksturs Esteban.

Í ljós kom að forritið hafði einnig verið notað til þess að njósna um síma Pedro Sánchez, forsætisráðherra, og Margaritu Robles, varnarmálaráðherra. Spænska dagblaðið El País segir ekki vitað hver njósnaði um ráðherrana en líklega hafi það verið erlend ríkisstjórn.

Njósnirnar áttu sér stað fyrir ári og fóru fram hjá leyniþjónustunni sem Esteban stýrir. Að minnsta kosti einn gagnaleki er talinn tengjast innbroti í síma Sánchez forsætisráðherra.

Málið hefur valdið miklum titringi innan spænsku ríkisstjórnarinnar. Flokkur katalónskra sjálfstæðissinna sem ver minnihlutastjórn Sánchez falli hét því að draga stuðning sinn til baka gripi stjórnin ekki til aðgerða til að endurvekja traust á leyniþjónstunni eftir uppljóstranirnar um njósnirnar í Katalóníu.

Persónuverndarstofnun Evrópusambandsins hefur kallað eftir því að bann verði lagt við notkun Pegasus-hugbúnaðarins vegna ásakana um að ríkisstjórnir sem keyptu forritið hafi misnotað það til þess að njósna um baráttufólk, blaðamenn og stjórnmálamenn, að sögn Reuters-fréttastofunnar.


Tengdar fréttir

Njósnabúnaðinum Pegasus beitt gegn aðgerðasinnum

Símanúmer aðgerðasinna, blaðamanna og stjórnmálamanna eru meðal þeirra sem eru á lista yfir fimmtíu þúsund símanúmer sem var lekið til fjölmiðla í gær. Talið er að símanúmerin tengist ísraelska fyrirtækinu NSO Group sem selur stjórnvöldum um allan heim búnaðinn Pegasus sem breytir símum fólks í eftirlitstæki.

Pegasus verkefnið veldur usla í stjórnmálaheiminum

Um helgina kom upp á yfirborðið að stjórnvöld um allan heim noti ísraelska njósnaforritið Pegasus til að njósna um borgara sína. Meðal þeirra sem njósnað hefur verið um eru forseti Mexíkó og helsti andstæðingur forsætisráðherra Indlands. Rúmlega áttatíu blaðamenn frá sextán miðlum hafa unnið úr gagnaleka um málið síðustu mánuði.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×