Innlent

Allir starfs­menn Eflingar ráðnir tíma­bundið til hálfs árs

Atli Ísleifsson skrifar
Sólveig Anna Jónsdóttir vann sigur í formannskosningum í Eflingu í febrúar síðastliðnum. Öllum starfsmönnum á skrifstofu Eflingar var svo sagt upp störfum í apríl.
Sólveig Anna Jónsdóttir vann sigur í formannskosningum í Eflingu í febrúar síðastliðnum. Öllum starfsmönnum á skrifstofu Eflingar var svo sagt upp störfum í apríl. Vísir/Vilhelm

Allir þeir sem verða ráðnir til starfa á skrifstofu Eflingar verða ráðnir tímabundið til hálfs árs á meðan látið er reyna á nýtt skipulag á skrifstofunni. Öllum starfsmönnum skrifstofunnar var sagt upp störfum í síðasta mánuði, í kjölfar sigurs Sólveigar Önnu Jónsdóttur í formannskosningum í febrúar.

Á heimasíðu Eflingar kemur fram að framkvæmdastjóri, eða staðgengill hans, muni upplýsa stjórn félagsins í samráði við formanninn Sólveigu Önnu um gang starfa og verkefna undir nýju skipulagi. Segir að vænta megi að það muni koma til frekari aðlagana, líkt og það er orðað.

Ennfremur segir að í stefnuskrá lista Sólveigar Önnu hafi verið rætt um nauðsyn þess að endurskoða starfslýsingar og meta mönnunarþörf skrifstofunnar auk annarra endurbóta í skipulagi starfsmannamála. 

Þá hafi listinn viljað taka upp nýtt, gagnsætt launakerfi. „Safnast hefur upp ósamræmi, ógagnsæi og úreltar venjur í ráðningarkjörum starfsfólks. Þetta hefur hamlað starfsemi félagsins og er að mati stjórnar tímabært að taka á því,“ segir á heimasíðunni.

Félagið auglýsti um páskana eftir nýjum framkvæmdastjóra félagsins, fjármálastjóra og í fjölda annarra starfa á skrifstofu félagsins. 

Alls var 42 á skrifstofunni sagt upp í hópuppsögn í síðasta mánuði.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×