Fótbolti

Bayern í­hugar að bjóða í Mané

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sadio Mané gæti yfirgefið Liverpool í sumar.
Sadio Mané gæti yfirgefið Liverpool í sumar. EPA-EFE/DOMENECH CASTELLO

Þýskalandsmeistarar Bayern München skoða möguleikann á að fá Sadio Mané, framherja Liverpool, í sínar raðir í sumar. Mané á aðeins rúmlega ár eftir af samningi sínum í Bítlaborginni og gæti hugsað sér til hreyfings.

Þetta kemur fram á vef Sky í Þýskalandi en þar segir að íþróttastjóri Bayern, Hasan Salihamidžić, hafi rætt við umboðsmanns hins þrítuga Mané á dögunum.

Senegalski framherjinn rennur út á samning sumarið 2023 og hefur gengið illa að endursemja við kauða. Því gæti Liverpool séð sér leik á borði og selt hann á dágóða summu í sumar frekar en að missa hann frítt ári síðar.

Þá segja heimildir Sky að Mané sé ósáttur með hversu mikið púður Liverpool hefur sett í að endursemja við Mohamed Salah á meðan samningsmál hans hafa setið á hakanum.

„Búið ykkur undir eitthvað óvænt,“ sagði Salihamidžić við Sky er hann var spurður hvort Bæjarar gætu sótt stjörnuleikmann í sumar.

Bayern fagnaði þýska meistaratitlinum um helgina en tímabilið litast af því að liðið féll úr leik í Meistaradeild Evrópu gegn Villareal í 8-liða úrslitum. Þá beið félagið afhroð í bikarkeppninni. 

Betur má ef duga skal í Bæjaralandi og því má reikna með að félagið verði virkt á leikmannamarkaðnum í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×