Innlent

Allt bendir til að góðu hjarðónæmi hafi verið náð: „Við getum bara hrósað happi yfir þessari stöðu“

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Vísir/Vilhelm

Sóttvarnalæknir telur að Íslendingar geti hrósað happi yfir stöðu faraldursins hér á landi. Bráðabirgðaniðurstöður nýrrar rannsóknar benda til að hér sé komið gott hjarðónæmi en óljóst er hvort ráðast þurfi í útbreiddar bólusetningar í haust með fjórða skammt bóluefnis.

Verulega hefur dregið úr fjölda þeirra sem greinast með Covid en um það bil 50 manns greinast nú daglega hér á landi. Fjórtán daga nýgengi á hverja hundrað þúsund íbúa hefur lækkað hratt og stendur nú í 249,3, samanborið við rúmlega 10.300 í mars þegar Covid var hámarki.

Staðan á Landspítala er sömuleiðis töluvert betri í dag en þrír Covid sjúklingar voru inniliggjandi fyrir helgi. Fyrir aðeins mánuði síðan voru 22 inniliggjandi og fyrir tæplega tveimur mánuðum, um miðjan mars, voru þeir 88.

„Staðan er bara mjög góð hér og það helgast bæði af útbreiddum bólusetningum og svo útbreiddu smiti ofan í þessar bólusetningar,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. „Við höfum ekki verið með neinar takmarkanir núna frá því í lok febrúar þannig við getum bara hrósað happi yfir þessari stöðu.“

Samkvæmt upplýsingum á covid.is hafa nú 49,3 prósent landsmanna greinst með veiruna en líklega hafa töluvert fleiri smitast í raun. Niðurstöður úr rannsókn Íslenskrar erfðagreiningar og sóttvarnalæknis munu varpa skýrara ljósi á það að sögn Þórólfs.

„Bráðabirgðarniðurstöður segja að það eru bara mjög margir sem að hafa smitast, eins og við vissum, sem að bendir til þess að við séum komin með gott hjarðónæmi og það er það sem að gerir það að verkum að við getum sloppið við takmarkanir,“ segir Þórólfur.

Hann nefnir engar tölur í því samhengi þar sem verið er að lesa í niðurstöðurnar. „Það er bara allt sem að bendir til þess að við séum komin á mjög góðan stað með hjarðónæmið okkar sem við vorum að bíða eftir,“ segir hann.

Staðan enn varhugaverð víða

Víða annars staðar í heiminum er staðan þó ekki jafn góð og eru takmarkanir enn í gildi víða til að mynda í Asíu. Þá virðist faraldurinn vera í uppsveiflu í Bandaríkjunum og hafa yfirvöld varað við því að hundrað milljón manns gætu smitast í haust og vetur þar í landi.

Staðan er því varhugaverð víða en aðspurður um hvort hann sjái fyrir sér að samkomutakmarkanir verði settar aftur á hér á landi í bráð segir Þórólfur að það gæti komið til þess, hvort sem er út af Covid eða öðrum veikindum.

„Við þurfum algjörlega að vera klár á því að við munum á einhverjum tímapunkti fá nýjan heimsfaraldur af einhverjum toga, hvenær það gerist nákvæmlega er erfitt að segja,“ segir Þórólfur og vísar til að mynda til þess að beðið sé eftir inflúensufaraldri.

„Að mínu mati þá þurfum við klárlega, ef við erum með alvarlegt smit í gangi, alvarlega sýkingu sem er að valda alvarlegum sjúkdómi, þá er ekkert annað í boði en að nýta þær aðgerðir sem að við höfum verið að nýta fram til þessa,“ segir hann enn fremur.

Þá heyrast áhyggjuraddir um ný afbrigði kórónuveirunnar en nokkrir hafa greinst með BA5, undirafbrigði ómíkron, hér á landi. Sóttvarnalæknir telur þó ekki ástæðu til að hafa áhyggjur af því að ný afbrigði muni valda miklum skaða, þó það sé að vísu óljóst á þessum tíma.

„Það sem að menn eru náttúrulega smeykastir við er ef það fara að koma ný afbrigði sem sleppa algerlega undan fyrri ónæmi og fara að valda alvarlegum veikindum, það er það sem menn eru hræddir við en mér finnst það nú frekar ólíklegt að það gerist,“ segir Þórólfur.

Fjórði skammturinn líklega ekki fyrir alla

Mörg lönd hafa verið að setja aukinn þunga í bólusetningar til að sporna gegn frekari útbreiðslu en á Íslandi hefur þátttakan verið mjög góð. 81 prósent landsmanna fimm ára og eldri hafa fengið alla vega tvo skammta og stór hluti þeirra hefur fengið þrjá skammta.

Byrjað er að bólusetja einstaklinga yfir áttrætt með fjórða skammtinum og geta yngri einstaklingar sem telja sig sérstaklega næma fyrir alvarlegri sýkingu óskað eftir því, þó ekki sé hvatt til þess að svo stöddu. Ólíklegt er að öllum verði boðið upp á fjórða skammtinn.

„En svo þurfum við að sjá hvað við þurfum að gera í haust til dæmis, þurfum við að fara af stað með útbreiddar bólusetningar og þá með hvaða bóluefni, það er óljóst á þessum tíma,“ segir Þórólfur. „Þetta helgast svolítið af því hvernig faraldurinn er, hvernig viðbrögðin verða.“

Eitt er þó víst, að Covid er alls ekki búið.

„Á meðan þetta er í fullri sveiflu í mörgum löndum og í heiminum, þá komum við til með að fá ný afbrigði af þessari veiru og þá þurfum við bara að vera í ákveðinni viðbragðsstöðu og fylgjast með því hvað við þurfum að gera,“ segir Þórólfur.


Tengdar fréttir

Enn óljóst hvaða lang­tíma­af­leiðingar Co­vid getur haft

Sóttvarnalæknir segir að langtímaafleiðingar Covid eigi enn eftir að koma í ljós en sífellt færri eru nú að greinast með veiruna hér á landi. Ljóst er að aukin áhætta er á blóðtappamyndun eftir Covid en sú áhætta er mögulega lengur til staðar heldur en áður var talið. Ástæða er til að fólk fari varlega eftir veikindi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.