Sara Björk var á bekknum og horfði því á er gestirnir frá París virtust ætla að halda út allan fyrri hálfleikinn en staðan var markalaus þegar nokkrar sekúndur voru til enda fyrri hálfleiks. Þegar neyðin er hins vegar mest þá er norska markamaskínan Ada Hegerberg næst.
Hún skoraði í blálok fyrri hálfleiks og Lyon 1-0 yfir. Delphine Cascarino bætti við öðru markinu þegar rétt rúm klukkustund var liðin og má segja að það mark hafi gert út um leikinn. Sara Björk kom svo inn af bekknum á 72. mínútu og hjálpaði Lyon að sigla 2-0 sigri í hús.
Sigurinn þýðir að þegar tvær umferðir eru eftir þá er Lyon með fimm stiga forystu á París Saint-German sem er í 2. sæti með 53 stig. Sem stendur hefur Lyon unnið 19 af 20 leikjum sínum og aðeins gert eitt jafntefli.
Lyon mætir PSG í næstsíðustu umferð deildarinnar en fyrst þurfa Sara Björk og liðsfélagar að mæta Barcelona í úrslitum Meistaradeildar Evrópu.