Fótbolti

Rekinn og um leið öruggur um laun næstu tvö ár

Sindri Sverrisson skrifar
Walter Mazzarri skildi við Cagliari í mikilli fallhættu.
Walter Mazzarri skildi við Cagliari í mikilli fallhættu. Getty/Emanuele Perrone

Walter Mazzarri hefur verið rekinn úr starfi þjálfara ítalska knattspyrnufélagsins Cagliari. Þessi sextugi þjálfari, sem á sínum tíma var orðaður við Liverpool, var með óvenjulega klásúlu í samningi sínum.

Samkvæmt Sportitalia framlengdist samningur Mazzarri við Cagliari sjálfkrafa til ársins 2024 við það að félagið skyldi reka hann þrátt fyrir að liðið væri ekki í fallsæti. 

Cagliari er tveimur stigum frá fallsæti og samkvæmt klásúlunni dugar það því til að tryggja Mazzarri laun næstu tvö árin þrátt fyrir að hann hafi nú verið rekinn.

Alessandro Agostini mun stýra Cagliari í síðustu þremur umferðunum í ítölsku A-deildinni

Mazzarri tók við Cagliari í september í fyrra en hann hefur fallið í áliti á undanförnum árum eftir að hafa getið sér gott orð sem þjálfari Napoli sem hann gerði til að mynda að bikarmeistara árið 2012. 

Hann stýrði Inter 2013-2014 og Mazzarri var svo orðaður við Liverpool árið 2015, og af veðbönkum talinn þriðji líklegastur til að fá starfið, á eftir Carlo Ancelotti og Jürgen Klopp sem var svo ráðinn.

Þrátt fyrir að tala ekki ensku komst Mazzarri hins vegar að í ensku úrvalsdeildinni þegar hann var ráðinn knattspyrnustjóri Watford sumarið 2016. Hann var þó látinn fara eftir eina leiktíð, eftir að Watford endaði í 17. sæti. 

Mazzarri stýrði svo Torino frá janúar 2018 og fram í febrúar 2020 en var rekinn í kjölfar 7-0 taps gegn Atalanta og 4-0 taps gegn Lecce, og tíminn hjá Cagliari varð eins og fyrr segir ekki langur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×