Fótbolti

Ísland getur ekki fallið úr Þjóðadeildinni og Portúgal fær EM-sæti

Sindri Sverrisson skrifar
Íslenska karlalandsliðið í fótbolta dróst í riðil með Rússlandi sem hefur verið bannað frá keppni.
Íslenska karlalandsliðið í fótbolta dróst í riðil með Rússlandi sem hefur verið bannað frá keppni. Getty/Mario Hommes

UEFA, knattspyrnusamband Evrópu, hefur tilkynnt um nokkrar ákvarðanir varðandi landslið Rússa vegna innrásarinnar í Úkraínu.

Ein af ákvörðunum snertir Ísland með beinum hætti því Rússland og Ísland drógust saman í riðil í B-deild Þjóðadeildarinnar í fótbolta karla og áttu að mætast þar í sumar.

UEFA hafði áður gefið út að Rússum yrði bannað að spila leiki í alþjóðlegum keppnum, bæði félagsliða og landsliða. Samkvæmt ákvörðun dagsins er svo orðið endanlega ljóst núna að Rússar munu því enda í 4. og neðsta sæti riðilsins sem Ísland er í í Þjóðadeildinni.

Það þýðir jafnframt að Arnar Þór Viðarsson og lærisveinar hans þurfa ekki að hafa neinar áhyggjur af hættu á að falla niður í C-deild. Það verður hlutskipti Rússa. 

Ísland mun hins vegar spila við Ísrael og Albaníu, og það lið sem endar efst í riðlinum kemst upp í A-deild, þar sem Ísland spilaði á fyrstu tveimur leiktíðunum í Þjóðadeildinni ásamt bestu landsliðum Evrópu.

Portúgal á EM í stað Rússlands

UEFA tilkynnti einnig að Portúgal kæmi inn á EM kvenna í Englandi í sumar, í C-riðilinn, í stað Rússlands. Komist Ísland upp úr sínum riðli, D-riðli, mætir Ísland liði úr C-riðli í 8-liða úrslitum og nú er ljóst að það yrði þá eitthvert þessara liða; Holland, Svíþjóð, Sviss eða Portúgal.

Þá hefur verið ákveðið að ógilda úrslit Rússlands í undankeppni HM kvenna og EM U21-landsliða karla. 

Rússnesk félagslið fá ekki að leika í Evrópukeppnum á næstu leiktíð. Þetta þýðir til að mynda að Skotlandsmeistarar þessa árs, sennilega Celtic, fara beint í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í haust. 

Þá hefur Rússum formlega verið bannað að halda EM 2028 eða 2032 en rússneska knattspyrnusambandið sótti um að fá að halda mótin.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.