Fótbolti

Pochettino: Pottþétt að við Mbappe verðum áfram hjá PSG

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mauricio Pochettino og Kylian Mbappe í leik með Paris Saint-Germain directs his players Kylian Mbappe í Meistaradeildarleiknum afdrífaríka á móti Real Madrid í vetur.
Mauricio Pochettino og Kylian Mbappe í leik með Paris Saint-Germain directs his players Kylian Mbappe í Meistaradeildarleiknum afdrífaríka á móti Real Madrid í vetur. Getty/David Ramos

Mikið hefur verið sagt og skrifað um framtíð þeirra Mauricio Pochettino og Kylian Mbappe hjá Paris Saint-Germain en flestir hafa búist við því að þeir munu yfirgefa félagið í sumar. Ekkert til í því samkvæmt Pochettino sjálfum.

Það hefur verið mikil óvissa um framtíð Pochettino eftir að PSG datt út úr sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Það nýjasta um síðustu helgi var að Antonio Conte væri á leiðinni til Parísar til að taka starfið af honum.

Franski framherjinn Kylian Mbappe er síðan að renna út á samningi í sumar og hefur verið statt og stöðugt orðaður við spænska stórliðið Real Madrid. Viðræður um nýjan samning eru hins vegar farnar í gang sem eru góðar fréttir fyrir PSG.

Pochettino var spurður út í framtíð sína og Mbappe hjá Paris Saint-Germain í gær og það stóð ekki á svarinu hjá honum.

„Hundrað prósent öruggt að við verðum báðir áfram,“ sagði Mauricio Pochettino.

„Þannig líður mér í dag og þetta er það sem ég sé og get sagt þér,“ sagði Pochettino.

„Ég get ekki sagt neitt annað en svona er mín tilfinning og mín sýn. Þetta er samt fótbolti og við vitum aldrei hvað getur gerst. Ég verð hins vegar að svara spurningu þinni eins og mín tilfinning er akkúrat í dag og svona er hún,“ sagði Pochettino.

Pochettino var orðaður við Manchester United en United ákvað frekar að fá Erik Ten Hag hjá Ajax sem næsta stjóra félagsins.

„Ég á eitt ár eftir af samningi mínum og þetta er því ekki spurning um ósk mína heldur bara um stöðu samningsins,“ sagði Pochettino sem gerði PSG að frönskum meisturum um síðustu helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×