Fótbolti

Raiola segist ekki vera látinn

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Raiola ásamt Zlatan en þeir hafa unnið lengi saman.
Raiola ásamt Zlatan en þeir hafa unnið lengi saman. vísir/getty

Mino Raiola, frægasti umboðsmaður heims, segist ekki vera látinn, þvert á fréttir fjölmiðla um allan heim.

Raiola greindi frá því á Twitter fyrir skemmstu að fréttir fjölmiðla um andlát hans væru stórlega ýktar. Hann segir þetta vera í annað sinn á fjórum mánuðum sem fjölmiðlar greini ranglega frá andláti hans. 

Margir fjölmiðlar birtu fréttir af því að Raiola væri látinn, 54 ára, eftir veikindi. Vísir, eins og fjölmargir aðrir, greindi frá andláti Ítalans. 

Raiola er ítalskur umboðsmaður og hefur margar af stærstu stjörnum fótboltaheimsins á sínum snærum. Má þar nefna leikmenn eins og Zlatan Ibrahimovic, Paul Pogba og Erling Håland.

Raiola er alinn upp í Hollandi og spilaði fyrir lið HFC Haarlem til átján ára aldurs er hann fór að þjálfa. Hann fór þá snemma í umboðsmennsku eftir að hafa þjálfað og menntað sig. Hann talar sjö tungumál.

Raiola hefur verið heilsuveill en í upphafi ársins var hann fluttur á gjörgæslu í Mílanó og fór í aðgerð. Hann gerði þó lítið úr veikindum sínum þá. Þó svo hann segist vera risinn í dag þá herma fréttir engu að síður að hann sé illa haldinn á sjúkrahúsi.

Umboðsmaðurinn er vellauðugur og lifir hátt. Hann er maðurinn á bak við samninginn er Paul Pogba varð dýrasti leikmaður heims. Því fagnaði Raiola með því að kaupa húsið sem Al Capone átti á sínum tíma í Miami.

Ítalinn þykir harðsvíraður samningamaður og umdeildur. Hann hefur þó oftar en ekki náð sínu í gegn.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×