Häcken og Rosengård gerðu 2-2 jafntefli í uppgjöri toppliða deildarinnar. Guðrún Arnardóttir lék allan leikinn í hjarta varnar gestanna. Þær Agla María Albertsdóttir og Diljá Ýr Zomers voru hins vegar fjarri góðu gamni.
Eftir jafntefli dagsins eru bæði lið sem fyrr á toppi deildarinnar, nú með 11 stig að loknum fimm umferðum.
Amanda Andradóttir var í byrjunarliði Kristianstad sem vann 1-0 heimasigur á Linköping. Spilaði Amanda 87 mínútur á meðan Emelía Óskarsdóttir sat allan tímann á varamannabekk liðsins.
Elísabet Gunnarsdóttir er sem fyrr þjálfari Kristianstad sem situr í 6. sæti með átta stig.
Hallbera Guðný Gísladóttir lék allan leikinn er Kalmar vann 1-0 heimasigur á Brommapojkarna. Var þetta annar sigur Kalmar á leiktíðinni og liðið nú í 10. sæti með sex stig.
Þá vakti athygli að landsliðskonan fyrrverandi Guðbjörg Gunnarsdóttir var á bekk Eskilstuna er liðið tapaði 2-0 gegn Djurgården. Guðbjörg er markmannsþjálfari liðsins en hefur greinilega brugðið sér í hlutverk varamarkvarðar í dag. Eskilstuna situr í 8.sæti með sjö stig.
Fréttin hefur verið uppfærð. Upphaflega stóð að Amanda hafi ekki verið í leikmannahóp Kristianstad en það var ekki rétt.