Innlent

Skólameistari í skógrækt – Garðyrkjuskólinn flyst á Selfoss

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Olga Lísa Garðarsdóttir, skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurlands, sem stundar m.a. skógrækt á Snæfellsnesi með manni sínum.
Olga Lísa Garðarsdóttir, skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurlands, sem stundar m.a. skógrækt á Snæfellsnesi með manni sínum. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurlands er fullur tilhlökkunar að taka við starfsemi eina Garðyrkjuskólana landsins, sem flyst frá Landbúnaðarháskóla Íslands á Selfoss í haust. Hér erum við að tala um Garðyrkjuskólann á Reykjum í Ölfusi.

Garðyrkjuskólinn á Reykjum var stofnaður 1939. Skólinn var sjálfstæður í 66 ár en árið 2005 var starfsemin færð undir Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri. Nú er enn og ný þáttaskil í sögu skólans því Fjölbrautaskóli Suðurlands á Selfossi er að taka við skólanum í lok sumars. Í dag eru 116 nemendur í skólanum í staðarnámi og fjarnámi.

Olga Lísa Garðarsdóttir, skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurlands líst mjög vel á að taka Garðyrkjuskólann yfir til sín.

„Þetta er spennandi verkefni og mikil áskorun, við ætlum að gera þetta vel,“ segir Olga Lísa.

Verða sömu brautir og sama nám eins og er í dag?

„Það stefnir í það já, en við eigum auðvitað eftir að sníða þetta betur að framhaldsskólakerfinu, það mun taka einhvern tíma. Verklega kennslan verður áfram á Reykjum, við erum ekki með neina aðstöðu á Selfossi, auðvitað á hún heima á Reykjum. En það þarf að bæta úr gróðurhúsunum verulega til þess að það sé hægt að halda þeim klassa á þessu námi eins og við viljum að sé,“ segir Olga Lísa.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands tók þátt í hátíðarhöldum í Garðyrkjuskólanum á sumardaginn fyrsta.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Olga Lísa segist eiga von á góðri aðsókn í skólann í haust enda mikill áhugi á garðyrkju í landinu, auk umhverfismála, skógræktar og landgræðslu, blómaskreytinga, ylrækt og skrúðgarðyrkju.

En er skólameistarinn með græna fingur?

„Já pínulítið, ég stunda skógrækt með manninum mínum, sem er mikill skógarbóndi. Ég er alltaf að fá betri og betri lit á hendurnar, þar að segja grænan. Við erum í skógrækt á Skógarströnd á Snæfellsnesinu", segir Olga Lísa, skólameistari.

Garðyrkjuskólinn á Reykjum var stofnaður 1939. Skólinn var sjálfstæður í 66 ár en árið 2005 var starfsemin færð undir Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri. Nú er skólinn að fara undir Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi.Magnús Hlynur Hreiðarsson


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×