Fótbolti

Valur Meistari meistaranna eftir sigur í vítaspyrnukeppni

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Valskonur tryggðu sér titilinn Meistarar meistaranna eftir sigur gegn Blikum í vítaspyrnukeppni í dag. Elín Metta Jensen (t.h.) skoraði sigurmarkið úr fimmtu spyrnu Vals.
Valskonur tryggðu sér titilinn Meistarar meistaranna eftir sigur gegn Blikum í vítaspyrnukeppni í dag. Elín Metta Jensen (t.h.) skoraði sigurmarkið úr fimmtu spyrnu Vals.

Valskonur eru Meistarar meistaranna eftir 4-2 sigur gegn Blikum í vítaspyrnukeppni í Meistarakeppni KSÍ í dag.

Eftir nokkuð bragðdaufan fyrri hálfleik fór Valskonur að færa sig framar á völlinn eftir því sem leið á síðari hálfleikinn. Þær fengu nokkur álitleg færi til að skora, en inn vildi boltinn ekki og því varð niðurstaðan eftir venjulegan leiktíma markalaust jafntefli.

Ekki er framlengt í Meistarakeppni KSÍ og því var farið beint í vítaspyrnukeppni til að skera úr um sigurvegara.

Mist Edvardsdóttir var fyrst á punktinn fyrir Valkonur og hún skoraði af miklu öryggi. Það gerði Alexandra Soree sömuleiðis fyrir Blika áður en Ásdís Karen Halldórsdóttir og Taylor Marie Ziemer skoruðu fyrir sitthvort liðið og staðan því 2-2.

Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir fór næst á punktinn fyrir Valskonur, en hún lét Telmu Ívarsdóttir verja frá sér. Helena Ósk Hálfdánardóttir fékk því tækifæri til að koma Blikum í forystu, en Sandra Sigurðardóttir varði frá henni.

Ída Marín Hermannsdóttir var næst á punktinn og hún kom Valskonum yfir á ný áður en Hildur Antonsdóttir setti sína spyrnu yfir markið úr fjórðu spyrnu Blika.

Elín Metta Jensen tók seinustu spyrnu Valskvenna og hún var ekkert að grínast. Elín hamraði boltann upp í samskeytin og tryggði Valskonum titilinn Meistarar meistaranna.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.