Erlent

Þrjú tonn af kókaíni í eldsneytistanki fiskiskips við Kanaríeyjar

Samúel Karl Ólason skrifar
Talið er að kókaínið komi frá Suður-Ameríku.
Talið er að kókaínið komi frá Suður-Ameríku. Getty

Lögreglan á Spáni hefur handtekið fimm manns eftir að tæp þrjú tonn af kókaíni fundust í eldsneytistanki fiskiskips undan ströndum Kanaríeyja. Kókaínið er verðmetið á um 77,8 milljónir dala, sem samsvarar rúmum tíu milljörðum króna.

Samkvæmt frétt Reuters sást skipið um þrjú hundruð sjómílum suður af eyjaklasanum þegar áhafnarmeðlimir skips strandgæslu Spánar fóru þar um borð. Það var þann þrettánda apríl.

Fjórir úr áhöfn skipsins eru frá Tyrklandi og einn frá Georgíu. Skipið sjálft heitir AKT 1 og var dregið til hafnar í Las Palmas í gær, samkvæmt frétt spænska miðilsins el Dia. Talið er að áhöfnin hafi verið að smygla fíkniefnum frá Suður-Ameríku til Evrópu.

El Dia segir að lögreglan á Spáni hafi komist á snoðir um ferðir skipsins í gegnum alþjóðlegt samstarf og að leitað hafi verið að því úr lofti.

Hér að neðan má sjá myndefni frá Las Palmas.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×