Fótbolti

Stuðningsmenn Frankfurt fyrirferðamiklir á Nývangi | Forseti Barcelona biðst afsökunar

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Stuðningsmenn Frankfurt voru á víð og dreif um Nou Camp sem er afar óvenjulegt.
Stuðningsmenn Frankfurt voru á víð og dreif um Nou Camp sem er afar óvenjulegt. vísir/Getty

Barcelona varð ekki aðeins undir innan vallar þegar liðið var slegið úr keppni í 8-liða úrslitum Evrópudeildarinnar í gær.

Eftir að hafa gert 1-1 jafntefli við Eintracht Frankfurt í fyrri leik liðanna í Þýskalandi í síðustu viku gerðu Þjóðverjarnir sér lítið fyrir og skelltu spænska stórveldinu, 2-3, á Nou Camp í Barcelona í gærkvöldi eftir að hafa komist í 0-3 forystu.

Þjóðverjarnir voru furðu vel studdir af stuðningsmönnum sínum og runnu tvær grímur á forráðamenn Barcelona þegar stúkan á þeirra heimavelli tók að fyllast af stuðningsmönnum gestaliðsins.

Í ljós kom að tæplega þrjátíu þúsund stuðningsmenn Frankfurt höfðu orðið sér úti um miða á leikinn og voru því ansi áberandi en alls voru seldir 79.468 miðar á leikinn.

Um er að ræða algjört klúður í miðasölu spænska félagsins en venjulega fá áhorfendur gestaliðsins aðeins fimm þúsund miða á Evrópuleiki á Nou Camp sem tekur alls 98 þúsund áhorfendur.

Xavi, stjóri Barcelona, hafði orð á því eftir leik að andrúmsloftið í stúkunni hafi verið honum mikil vonbrigði og Joan Laporta, forseti Barcelona var fljótur að gefa út tilkynningu þess efnis að félagið myndi rannsaka hvað hafi farið úrskeiðis í miðasölunni.

Eins og sjá má hér að ofan var Laporta mikið niðri fyrir vegna málsins og bað stuðningsmenn félagsins afsökunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×