Erlent

Slakað á í Sjanghæ: 4,8 milljónum hleypt út í fyrsta sinn í tvær vikur

Samúel Karl Ólason skrifar
Íbúar borgarinnar hafa búið við harðar sóttvarnaaðgerðir en útgöngubann hefur verið í borginni síðan þann 28. mars, eða í rúmar tvær vikur.
Íbúar borgarinnar hafa búið við harðar sóttvarnaaðgerðir en útgöngubann hefur verið í borginni síðan þann 28. mars, eða í rúmar tvær vikur. AP

Yfirvöld í Kína hafa slakað lítillega á sóttvörnum í Sjanghæ og stórum hluta þeirra 25 milljóna sem þar búa var hleypt út í fyrsta sinn í tvær vikur. Fjölmiðlar ytra segja fólk hafa hlaupið í verslanir til að kaupa matvæli eftir mikla inniveru.

AP segir myndbönd sýna fólk brjótast inn í matvöruverslun og kalla eftir hjálp.

Íbúar borgarinnar hafa búið við harðar sóttvarnaaðgerðir en útgöngubann hefur verið í borginni síðan þann 28. mars, eða í rúmar tvær vikur. Fyrirtækjum var lokað og hafa margir óttast að fólk myndi hreinlega deyja úr hungri á heimilum sínum.

Í frétt Reuters segir að slakað hafi verið á takmörkunum á svæðum þar sem um 4,8 milljónir af 25 búa. Þar hafi fólki verið leyft að fara út eftir að enginn hafi greinst smitaður þar í fjórtán daga. Það er þó óljóst hve frjálst ferða sinna viðkomandi fólk er.

Einn íbúi sagðist hafa fengið leyfi til að fara út hjá íbúastjórn síns fjölbýlishúss en það leyfi hafi verið afturkallað strax aftur.

„Þetta breytist allt mjög hratt. Ef þú getur farið út er gott að gera það strax því það gæti breyst á næstu klukkustund,“ sagði konan við Reuters.

Hinar skyndilegu lokanir í Sjanghæ hafa verið gagnrýndar af íbúum og þá sérstaklega vegna þess að fólk hafi ekki haft aðgang að matvælum og lyfjum og hafi ekki getað aðstoðar aldraða ættingja sem búa einir.

AP segir ýmislegt benda til þess að lokunin í Sjanghæ hafi verið svo umfangsmikil sé vegna pólitíkur í Kína. Þessi vandræði í auðugustu borg Kína séu skömmustuleg fyrir Xi Jinping, sem ætlar á þessu ári að fara gegn venjum Kína og hefja sitt þriðja fimm ára kjörtímabil sem leiðtogi Kommúnistaflokksins.

Smittölur séu tiltölulega lágar í Kína en Kommúnistaflokkurinn hefur haldið ströngum smitreglum sínum til streitu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×