Fótbolti

Gunnhildur sýnir Úkraínu samstöðu á meðan hún berst gegn Hvít-Rússum

Sindri Sverrisson skrifar
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir er fyrirliði íslenska landsliðsins.
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir er fyrirliði íslenska landsliðsins. Foto: Hulda Margrét Óladóttir/Hulda Margrét

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir sýnir Úkraínu samstöðu með táknrænum hætti í landsleik Íslands og Hvíta-Rússlands sem nú stendur yfir í Belgrad í Serbíu.

Gunnhildur Yrsa er með fyrirliðabandið sitt í fánalitum Úkraínu, gulum og bláum, í leiknum sem er liður í undankeppni HM í fótbolta.

Gunnhildur er búin að koma sér á blað í leiknum með því að skora annað mark Íslands en lýsingu frá leiknum má finna hér:

Samkvæmt ákvörðun UEFA mega landslið Hvíta-Rússlands ekki spila heimaleiki sína í landinu, vegna stuðnings Hvít-Rússa við innrás Rússa í Úkraínu.

Knattspyrnusamband Hollands gekk skrefi lengra og neitar að láta landslið sín spila leiki við Hvíta-Rússland, svo að leik Hollands og Hvíta-Rússlands í riðli Íslands, sem fara átti fram á þriðjudaginn, hefur verið frestað um óákveðinn tíma.

Knattspyrnusamband Íslands fer hins vegar eftir uppleggi UEFA og neitar að spila landsleiki við Rússland en heimilar leiki við Hvíta-Rússland utan landamæra Hvíta-Rússlands.

Gunnhildur Yrsa er áfram fyrirliði Íslands þrátt fyrir að Sara Björk Gunnarsdóttir sé nýkomin aftur í hópinn eftir að hafa eignast barn í nóvember. Gunnhildur hefur verið fyrirliði frá því að Þorsteinn Halldórsson tók við sem landsliðsþjálfari í janúar í fyrra.

Gunnhildur hefur á þessu ári einnig látið til sín taka í baráttu gegn nýjum lögum í Flórída sem kölluð hafa verið „Don‘t say gay“-lög af gagnrýnendum. Þau fela meðal annars í sér að foreldrum sé gert kleift að höfða mál á hendur skólastjórnendum ef fjallað er um samkynhneigð í kennslu 5 til 11 ára barna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×