Innlent

Bjarni Tryggva­son geim­fari er látinn

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Bjarni Tryggvason er látinn, 76 ára að aldri.
Bjarni Tryggvason er látinn, 76 ára að aldri. Getty/HUM Images

Bjarni Valdimar Tryggvason geimfari er látinn, 76 ára að aldri. Kanadíski geimfarinn Chris Hadfield greindi frá andláti hans á Twitter í dag. 

Bjarni fæddist í Reykjavík 21. september 1945 en fluttist til Vancouver í Kanada sjö ára gamall með foreldrum sínum. 

Bjarni var eðlisverkfræðingur að mennt og fór fyrstur Íslendinga, og sá eini, í geiminn þegar hann varði þar tólf dögum árið 1997. Bjarni sinnti þar að auki rannsóknum og kennslu á sviði loftaflsfræði, straumfræði, stærðfræði og hönnun kerfa fyrir geimferðir. S0muleiðis vann hann við flugvélaprófanir og -þjálfun. 

Bjarni með kollegum sínum úti í geimnum. Efri röð til vinstri: Bjarni Tryggvason, Stephen K. Robinson, Curtis L. Brown, Jr., Neðri röð frá vinstri: Robert L. Curbeam, Jr., N. Jan Davis, Kent V. Rominger.Getty/ HUM Images

Hadfield, sem var góður vinur Bjarna og samstarfsmaður hans, skrifar á Twitter að hann hafi misst góðan vin í dag. Bjarni hafi verið góðhjartaður, fyndinn og einstakur maður. Bjarni lætur eftir sig tvö börn.

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands mynnist Bjarna á Facebook. 

„Geimfarinn Bjarni Tryggvason er fallinn frá. Árið 1952 fluttist hann sjö ára að aldri frá Íslandi til Vancouver í Kanada og átti þar farsælan feril, lengi vel í geimrannsóknum. Árið 1997 tók hann þátt í geimferð og varð þar með fyrstur manna, fæddra á Íslandi, til þess að halda út í geim,“ skrifar Guðni.

„Fyrir fjórum árum varð ég þess heiðurs aðnjótandi að fá Bjarna í heimsókn og spjalla við hann. Þótt hann hafi alið sinn aldur í Kanada á hann sér verðugan sess í Íslandssögunni.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×