Innlent

Sigurður Ingi fór undan í flæmingi og fann ekki bílinn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra vildi ekkert ræða við fjölmiðla að loknum fundi ríkisstjórnarinnar í Ráðherrabústaðnum í morgun. Sigurður Ingi vísaði einfaldlega til yfirlýsingar sinnar á Facebook og sagðist vera búinn að segja það sem hann ætlaði að segja.

Vigdís Häsler, framkvæmdastjóri Bændasamtakanna, steig fram í gær á Facebook og sagði sig knúna til að tjá sig um uppákomu á samkomu sem tengdis Búnaðarþingi aðfaranótt föstudags.

„Starfsfólk Bændasamtakanna óskaði eftir því að innviðaráðherra og fleiri væru með í myndatöku sem ég kom síðar að. Þar voru afar særandi ummæli látin falla og heyrði bæði ég það sem og starfsfólk samtakanna,“ sagði Vigdís í færslu í gær.

Ingveldur Sæmundsdóttir, aðstoðarmaður Sigurðar Inga, sagði um helgina að það væri algjört bull að Sigurður Ingi hefði látið ummæli í þeim dúr falla. Hann hefði sagt eitthvað á þá leið að hann vildi ekki halda á Sjálfstæðiskonu.

„Aðstoðarmaður ráðherrans var ekki við hlið hans þegar ummælin voru látin falla, eins og hún hefur haldið fram en myndir úr þessari myndatöku sýna það án alls vafa. Það er særandi þegar reynt er að gera lítið úr upplifun minni og þegar beinlínis rangar skýringar eru notaðar við það.“

Hvorki Sigurður Ingi né Ingveldur svöruðu ítrekuðum fyrirspurnum fréttastofu í gær. Sigurður Ingi tjáði sig stuttlega á Facebook eftir hádegið í gær.

„Ég er alinn upp við það og það er mín lífsskoðun að allir séu jafnir. Þess vegna hef ég tamið mér að koma jafnt fram við alla. En mér verður á eins og öðrum. Það þykir mér miður. Í kvöldverðarboði Framsóknar fyrir fulltrúa á Búnaðarþingi síðastliðið fimmtudagskvöld, lét ég óviðurkvæmileg orð falla í garð framkvæmdastjóra Bændasamtakanna. Á þeim orðum biðst ég innilegrar afsökunar. Í lífinu er maður alltaf að læra á sjálfan sig. Sárt er þó að sá lærdómur bitni á tilfinningum annarra.“

Fjölmiðlar gerðu tilraun til að ræða við Sigurð Inga að loknum fundinum í morgun. Sigurður Ingi sagðist ekkert vilja tjá sig frekar um málið. Leitaði hann að ráðherrabíl sínum fyrir utan Ráðherrabústaðinn en virðist svo í framhaldinu hafa ákveðið að ganga af vettvangi.

Sigurður var meðal annars spurður út í hvort hann gæti útskýrt nánar hvað hann sagði við Vigdísi, hvort hann telti stætt að sitja áfram sem ráðherra og hvort hann sæi eftir ummælunum.

Þá hefur ekki komið fram hvort Sigurður hafi beðið Vigdísi persónulega afsökunar á ummælum sínum. 

Aðrir ráðherrar ræddu málið

Aðrir ráðherrar voru spurðir álits á ummælum Sigurðar Inga. Þeirra á meðal Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Hún sagðist hafa rætt málið við Sigurð Inga í gær. Hún vissi þó ekki nákvæmlega hver ummælin væru sem hann hefði látið falla.

Annars væri það Sigurðar Inga að ræða við hann og blaðamanna að krefja hann svara.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra segir miður að orðin hafi verið viðhöfð. Þau myndu þó ekki hafa áhrif á samstarf þeirra Sigurðar Inga sem hafi verið gott.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumálaráðherra, vonast til þess að málið veki fólk til umhugsunar í samfélaginu. Hann vildi ekki svara því hvort Sigurður Ingi ætti að segja af sér.

Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra segir að Sigurður Ingi hafi gert grein fyrir mistökum sínum. Framsóknarflokkurinn sé alls ekki rasískur flokkur.


Tengdar fréttir

Biðst innilegrar afsökunar á orðum sínum um Vigdísi

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra biðst innilegrar afsökunar á orðum sem hann lét falla í garð Vigdísar Häsler, framkvæmdastjóra Bændasamtakanna, aðfaranótt föstudags í gleðskap í tengslum við Búnaðarþing. Þetta kemur fram í stuttri færslu Sigurðar Inga á Facebook.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×