Erlent

Saka Rússa um að hafa gert á­rásir á frið­sæl mót­mæli

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Úkraínumenn náðu fjölmörgum svæðum í grennd við Kænugarð aftur á sitt vald í dag. Til að mynda bæinn Bucha, þar sem Rússar hafa drepið ótal almenna borgara.
Úkraínumenn náðu fjölmörgum svæðum í grennd við Kænugarð aftur á sitt vald í dag. Til að mynda bæinn Bucha, þar sem Rússar hafa drepið ótal almenna borgara. AP Photo/Vadim Ghirda

Úkraínumenn saka Rússa um að hafa gert sprengjuárásir á friðsæl mótmæli í sunnanverðri Úkraínu í dag. Stjórnvöld vara við hörðum átökum á svæðinu næstu daga. Frans páfi var óvenjuharðorður í garð Rússlandsforseta í ávarpi í dag.

Stríðið í Úkraínu hefur nú staðið yfir í á sjöttu viku en Úkraínumenn virðast nokkuð upplitsdjarfir. Oleksiy Arestovych, ráðgjafi Úkraínuforseta, segir hersveitir nærri Kænugarði nú hafa náð yfir þrjátíu bæjum og þorpum á sitt vald á ný - og að tekist hafi að hemja ásókn Rússa úr austri. Mjög hart verði þó barist í austur- og suðurhéruðum Úkraínu á komandi dögum, einkum í hinni stríðshrjáðu Maríupól.

Samkomulag náðist um sjö mannúðarhlið út úr borgum Úkraínu í dag og þá freistaði Rauði krossinn þess enn einu sinni að bjarga fólki frá Maríupól. Tilraun til þess mistókst í gær - en úkraínsk stjórnvöld segjast þó hafa komið 3000 manns út úr borginni í gær.

Þá eru rússneskir hermenn sagðir hafa gert stórskotaliðsárásir í úkraínsku borginni Enerhodar, þar sem finna má stærsta kjarnorkuver í Evrópu. Bæði borgin og kjarnorkuverið hafa verið á valdi Rússa síðan 4. mars. Úkraínska kjarnorkamálastofnunin segir íbúa í borginni hafa verið samankomna á friðsamlegum mótmæla gegn stríðinu þegar Rússar réðust á þá.

Þá eru nú minnst 35 sagðir hafa fallið í eldflaugaárás á stjórnarbyggingu í borginni Mykolaiv en björgunarfólk hélt áfram leit í rústunum í dag.

Páfi kallaði Pútín pótintáta

Frans páfi, sem nú er staddur í Möltu, segist nú íhuga heimsókn til Kænugarðs. Hann var gagnrýninn sem aldrei fyrr í garð Vladímírs Pútíns Rússlandsforseta í ávarpi í dag - og lýsti innrásinni sem villimannslegri.

„Enn á ný er einhver pótintáti, sem því miður er fastur í úreltum þjóðerniskröfum, að hvetja og efna til ófriðar þótt venjulegt fólk finni þörfina á að byggja upp framtíð sem verður annað hvort sameiginleg eða verður alls ekki,“ sagði Frans páfi í ávarpi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×