Fótbolti

Sveindís Jane hlaðin lofi eftir frábæra frammistöðu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Varnarlína Arsenal eyddi löngum stundum á rassinum í von um að stöðva Sveindísi Jane.
Varnarlína Arsenal eyddi löngum stundum á rassinum í von um að stöðva Sveindísi Jane. Boris Streubel/Getty Images

Sveindís Jane Jónsdóttir nýtti heldur betur tækifærið er hún byrjaði stórleik Wolfsburg og Arsenal í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Hún lagði upp bæði mörk Wolfsburg í 2-0 sigri og átti risastóran þátt í að liðið er komið í undanúrslit Meistaradeildarinnar.

Það er hægt að byrja illa, það er hægt að byrja með látum og svo er hægt að byrja eins og Sveindís Jane Jónsdóttir byrjar þegar hún fær tækifæri í byrjunarliði Wolfsburg. Eftir að hafa verið á láni hjá Kristianstad í Svíþjóð þá er Sveindís Jane loks mætt til Þýskalands en þýska stórliðið Wolfsburg festi kaup á henni í desember árið 2020.

Hún byrjaði sinn fyrsta leik í þýsku úrvalsdeildinni á dögunum er Wolfsburg vann 5-1 sigur á Köln. Skoraði hún þar tvö mörk og sýndi almennt lipra takta. 

Fimmtudaginn 31. mars byrjaði hún svo sinn fyrsta leik í Meistaradeild Evrópu. Ekki var um neinn smáleik að ræða þar sem liðið mætti Arsenal í síðari leik liðanna í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Fyrri leiknum lauk með 1-1 jafntefli og því allt galopið fyrir síðari leik liðanna. 

Ef Sveindís Jane hafði nýtt tækifærið vel gegn Köln þá gerði hún gott betur gegn Arsenal. Hún endaði á að leggja upp bæði mörk liðsins í 2-0 sigri og eiga þar með risastóran þátt í því að Wolfsburg er komið í undanúrslit Meistaradeildarinnar gegn Barcelona, besta liði heims um þessar mundir.

Samfélagsmiðlar loguðu eftir frammistöðu Sveindísar gegn stórliði Arsenal og þá var eðlilega ritað um frammistöðu hennar á miðlum sem fjölluðu um leikinn. Hér að neðan má sjá brot af því besta.

Sveindís Jane hefði átt að vera valin maður leiksins að matri flestra, ekki bara Íslendinga.

Varnarmenn Arsenal verða með martraðir næstu vikur.

Einstök Sveindís Jane Jónsdóttir.

Stjarna framtíðarinnar.

Gögnin tala sínu máli.

Fylgist með þessari

Stuðningsfólk Barcelona er þegar farið að hafa áhyggjur.

Getur orðið mjög mikilvæg fyrir Wolfsburg.

Á vef þýska fjölmiðilsins DW er fjallað ítarlega um leikinn og þá sérstaklega frammistöðu Sveindísar Jane.

„Hin tvítuga Sveindís Jane Jónsdóttir kynnti sig á stærsta sviðinu með frammistöðu sem hjálpaði Wolfsburg að komast í undanúrslit enn á ný.“

„Framherjinn á vængnum gerði gæfumuninn í sínum fyrsta byrjunarliðsleik í Meistaradeild Evrópu. Hraði hennar, áræðni og fyrirgjafir gerðu varnarmönnum Arsenal lífið leitt. Frammistaða Sveindísar Jane sýndi að Tommy Stroot, þjálfari Wolfsburg, gerði það eina rétta í stöðunni þegar hann ákvað að setja hana í byrjunarliðið fyrir hina reynslumiklu Alexöndru Popp.“

„Alltaf þegar Jónsdóttir fékk boltann féll Arsenal liðið aftar á völlinn í ótta um að hraði hennar og gæði myndu tæta vörn liðsins í sundur.“

Bresku miðlarnir The Guardian og The Telegraph einblíndu á frammistöðu Arsenal en minntust samt á þátt Sveindísar í báðum mörkum Wolfsburg.

Varnarmenn Arsenal réðu ekkert við Sveindísi Jane.ANP/Getty Images



Fleiri fréttir

Sjá meira


×