Fótbolti

Skytturnar vonast til að Wolfs­burg sofni á verðinum undir lok leiks

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Það var hart barist í Lundúnum og verður það einnig í dag.
Það var hart barist í Lundúnum og verður það einnig í dag. David Price/Getty Images

Arsenal mætir Sveindísi Jane Jónsdóttur og stöllum hennar í Wolfsburg í síðari leik liðanna í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í kvöld. Fyrri leiknum lauk með 1-1 jafntefli þar sem Skytturnar skoruðu undir lok leiks en Wolfsburg á það til að sofna á verðinum undir lok leikja.

Arsenal stefnir á að komast í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu í fyrsta sinn síðan 2013. Til þess að það gangi eftir þarf liðið að leggja Wolfsburg að velli í Þýskalandi er liðin mætast í kvöld. Arsenal var heppið að sleppa með 1-1 jafntefli úr fyrri leik liðanna en Jonas Eidevall, hinn sænski þjálfari Skyttanna, er bjartsýnn.

Eidevall segir lið sitt geta spilað mun betur en það gerði í Lundúnum í síðustu viku. Sú staðreynd að Wolfsburg hefur nú fengið á sig mark á 89. mínútu eða síðar í fjórum af síðustu sjö leikjum sínum.

Liðið verður þó vel stutt í kvöld en í fyrsta sinn síðan 2013 mun kvennalið Wolfsburg leika á aðaleikvangi liðsins, Volkswagen-vellinum, og búist er við meira en tíu þúsund manns á leikinn.

Gríðarleg góð mæting hefur verið á leiki í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu og var sett heimsmet á Nývangi í Katalóníu í gær er Barcelona lagði Real Madríd. 

Sveindís Jane Jónsdóttir og stöllur hennar vonast til að aukinn stuðningur muni hjálpa liðinu að halda einbeitingu í stórleik kvöldsins. Stuðningsfólk Wolfsburg mun mynda „grænan vegg“ sem vonandi sér til þess að halda Skyttunum í skefjum.

Leikur Wolfsburg og Arsenal hefst klukkan 16.45 og verður hægt sjá beina útsendingu frá leiknum hér á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×