Fótbolti

Pálmi varði víti í tapi fyrir Króötum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Pálmi Rafn Arinbjörnsson er á mála hjá Wolves á Englandi.
Pálmi Rafn Arinbjörnsson er á mála hjá Wolves á Englandi. getty/Jack Thomas

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta skipað leikmönnum nítján ára og yngri tapaði fyrir Króatíu, 2-1, í fyrsta leik sínum í milliriðli í undankeppni EM 2022.

Luka Stojkovic kom Króötum yfir á 14. mínútu en Orri Steinn Óskarsson jafnaði fyrir Íslendinga á 33. mínútu. Þetta var fimmta mark hans í sjö leikjum fyrir U-19 ára landsliðið.

Staðan var 1-1 í hálfleik. Á 71. mínútu fékk Króatía vítaspyrnu eftir að Þorsteinn Aron Antonsson braut á Gabriel Vidovic. Bartol Barisic tók spyrnuna en Pálmi Rafn Arinbjörnsson varði frá honum.

Adam var þó ekki lengi í paradís því á 74. mínútu skoraði Ivan Cvijanovic sigurmark Króatíu.

Næsti leikur Íslands er gegn Georgíu á sunnudaginn. Síðasti leikurinn í riðlinum er svo gegn Rúmeníu á þriðjudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×