Enski boltinn

Stálu HM-gullverðlaunum hans Paul Pogba

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Paul Pogba fagnar heimsmeistaratitlinum í Moskvu með HM-bikarinn í hendinni og HM-gullverðlaunin um hálsinn.
Paul Pogba fagnar heimsmeistaratitlinum í Moskvu með HM-bikarinn í hendinni og HM-gullverðlaunin um hálsinn. EPA-EFE/PETER POWELL

Innbrotsþjófarnir sem komust inn á heimili franska knattspyrnumannsins Paul Pogba á dögunum höfðu með sér verðmæti.

Innbrotið var framið á meðan Paul Pogba var að spila í Meistaradeildinni á Old Trafford og eiginkona var í stúkunni. Börnin voru hins vegar heima.

Pogba ræddi innbrotið í blaðaviðtali og einnig um að hafa orðið þunglyndur eftir að hafa lent í Jose Mourinho á Old Trafford.

Brotist var inn til Pogba 15. mars síðastliðinn en Manchester United var þá að spila örlagaríkan leik á móti Atletico Madrid þar sem United endaði á að detta úr leik í Meistaradeildinni.

Meðal þess sem stolið var voru gullverðlaun Poga frá því á heimsmeistaramótinu í Rússlandi árið 2018.

„Þeir tóku skartgripi frá móður minni og HM-gullverðlaunin mín,“ sagði Paul Pogba í viðtali við franska blaðið Le Figaro.

„Það sem hræddi mig mest var að bæði börnin mín voru heima með barnfóstru sinni. Hún heyrði allt, hringdi í konuna mína og öryggisverði en læsti sig síðan inn í herbergi með strákunum,“ sagði Pogba.

„Hún var í áfalli í marga daga. Aðalatriðið var að það var í lagi með börnin mín,“ sagði Pogba.

Pogba talaði líka um andlegt ástand sitt í viðtalinu en hann er nú staddur með franska landsliðinu sem er að fara spila vináttuleiki á móti Fílabeinsströndinni og Suður-Afríku.

„Ég hef glímt við þunglyndi á mínum ferli en við tölum bara ekki um slíkt,“ sagði Pogba.

„Stundum veistu ekki hver þú ert, stundum viltu bara einangra þig og vera einn. Það eru skýr dæmi um þunglyndi,“ sagði Pogba.

„Þetta byrjaði hjá mér persónulega þegar Jose Mourinho var hjá Manchester United. Þú ferð að spyrja sjálfan þig spurninga og ferð að velta því fyrir þér hvort að þetta sé bara þér að kenna. Það er vegna þess að þú hefur aldrei upplifað slíkt áður á ævi þinni,“ sagði Pogba.

„Við fáum há laun og kvörtum vanalega ekki en það kemur samt ekki í veg fyrir það að við förum í gegnum erfiða tíma eins og allir aðrir í sínu lífi,“ sagði Pogba.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×