Fótbolti

Þriggja ára bann eftir að gefa and­stæðingi Muay Thai oln­boga­skot

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Atvikið sem um er ræðir.
Atvikið sem um er ræðir. Skjáskot

Fótboltamaður í þriðju efstu deild í Taílandi hefur verið dæmdur í þriggja ára bann eftir að hafa ráðist á mótherja og gefa honum svakalegt olnbogaskot.

Aitsaret Noichaiboon brást hinn versti við þegar Supasan Ruangsuphanimit, leikmaður Norður-Bangkok háskólans, sparkaði í hælana á honum í uppbótartíma í leik gegn Bangkok FC um helgina.

Noichaiboon hljóp að Ruangsuphanimit og gaf honum rosalegt olnbogaskot sem væri betur við hæfi í blönduðum bardagalistum. Í kjölfarið fékk Noichaiboon beint rautt spjald og eftir leik var hann rekinn frá Bangkok.

„Bangkok FC vill taka afstöðu og styður ekki svona lagað. Félagið hefur sagt samningi leikmannsins upp. Félagið biðst afsökunar á atvikinu og mun gera allt til að koma í veg fyrir að þetta gerist aftur,“ sagði í yfirlýsingu frá Bangkok.

Ruangsuphanimit var fluttur á spítala eftir leikinn og sauma þurfti 24 spor í efri vör hans.

Nú hefur knattspyrnusamband Taílands gefið út að Noichaiboon sé kominn í þriggja ára bann frá öllum leikjum á vegum sambandsins. Hann mun því ekki geta iðkað Muay Thai á knattspyrnuvöllum landsins á næstunni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.