Íslenski boltinn

Blikar fá úkraínska landsliðskonu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Úkraínska landsliðskonan Anna Petryk er mætt í Kópavoginn.
Úkraínska landsliðskonan Anna Petryk er mætt í Kópavoginn. Mynd/Breiðablik

Úkraínska landsliðskonan Anna Petryk hefur samið við knattspyrnudeild Breiðabliks um að spila með liðinu í Bestu deildinni í sumar.

Frá þessu er greint á heimasíðu Briðabliks, en Anna kemur til Blika frá úkraínsku meisturunum Zhytlobud-1 Kharkiv, sem Breiðablik mætti í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í haust.

Blikar voru fljótir að bregðast við þegar þeir fréttu að þessi öfluga knattspyrnukona væri tilbúin að flytja til Íslands, en ástandið í Kharkiv er afar slæmt eftir innrás Rússa í Úkraínu.

Anna er 24 ára, fædd í höfuðborginni Kænugarði, en bjó og spilaði fótbolta fyrstu 17 ár ævi sinnar í Maríupol. Hún á að baki 102 leiki í efstu deild í Úkraínu, 19 leiki í Meistaradeild Evrópu og 20 leiki fyrir úkraínska landsliðið.

Í tilkynningu Breiðabliks kemur fram að félagið ætli að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að gera dvöl hennar á Íslandi sem besta.

„Saman ætlum við að gera allt til þess að gera dvöl hennar á Íslandi sem besta. Við hugsum áfram hlýtt til Úkraínu og fordæmum stríð og árásir á saklausa borgara,“ segir í tilkynningunni.

“Velkomin í Kópavoginn og til Breiðabliks, Anna Petryk.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×