Innlent

Myndband sýnir Grímsá ryðjast yfir stíflugarð og þurrka út handrið

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Hér sést stíflugarðurinn fyrir og eftir flóðið.
Hér sést stíflugarðurinn fyrir og eftir flóðið.

Miklar skemmdir urðu á stíflugarði Grímsárvirkjunar á föstudag þegar Grímsá í Skriðdal streymdi yfir garðinn af gríðarlegum krafti. Áin ruddi á undan sér miklum ís, sem lagði handrið ofan á garðinum algjörlega í rúst.

Myndband úr öryggismyndavél í virkjuninni sýnir hvernig klakinn ryðst smám saman yfir garðinn til vinstri á mynd. Ísinn byrjar að byggjast upp strax í byrjun myndbandsins.

Klippa: Grímsá flæddi yfir stíflugarð

Síðar í myndbandinu má svo sjá ána sjálfa í miklum ham, rennslið eykst og mikill klaki ferðast með ánni fram hjá stíflugarðinum. Eftir um sex mínútur af myndbandinu er rennslið hvað mest.

Var niðri á garðinum nokkrum mínútum áður

Mikil úrkoma og hlýindi hafa verið á Austurlandi síðustu daga og leysingar miklar eftir því. Pálmi Hreinn Sigurðsson verkefnastjóri virkjana Orkusölunnar á Austurlandi segir það gerast reglulega að áin flæði yfir stíflugarðinn. Þetta hafi þó verið með allra mesta móti á föstudag.

Aðspurður segir hann starfsmenn virkjunarinnar oft leggja leið sína út á stíflugarðinn, þar sem áin ruddist yfir. Sjálfur hafi hann til dæmis verið þarna niðri nokkrum mínútum áður en allt fór af stað.

Meðalrennsli í Grímsá er um 13 rúmmetrar á sekúndu. Rennslið í ánni mældist mest 900 rúmmetrar á sekúndu þegar hún flæddi yfir garðinn á föstudag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×