Erlent

Banamaður Che Guevara er látinn

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Che Guevara var tekinn af lífi af Mario Terán árið 1967.
Che Guevara var tekinn af lífi af Mario Terán árið 1967. Getty/Hulton Archive

Mario Terán, bólivíski hermaðurinn sem banaði uppreisnarleiðtoganum Ernesto „Che“ Guevara er látinn, 80 ára að aldri. 

Gary Prado, herforinginn sem leiddi herdeild Terán, sagði í samtali við Radio Companera í dag að Terán hafi einungis fylgt skipunum og skyldum sínum sem liðþjálfi í bólivíska hernum. Þá sagði hann að Terán hafi lengi glímt við veikindi og látist af þeirra völdum. Hann lætur eftir sig eiginkonu og tvö börn. 

Guevara var argentískur læknir og skipaði sér goðsagnarkenndan sess sem einn helstu leiðtoga kúbönsku byltingarinnar, sem náði völdum í Kúbu árið 1959 undir stjórn Fidels Castro með því að hrekja einræðisherrann Fulgencio Batista af valdastóli. 

Eftir að hafa verið einn hæst setti embættismaðurinn hjá kúbönskum yfirvöldum í nokkur ár einsetti hann sér að leiða frekari byltingar, bæði í Afríku og í Suður-Ameríku. Þær gengu þó ekki nærri eins vel og á Kúbu. 

Eftir margra mánaða leit náðu bólivískir hermenn í skottið á Guevara og hersveit hans árið 1967. Terán var valinn til að bana Guevara, sem var þegar særður. Hann var þá 39 ára gamall. 

Terán sagði síðar í samtali við blaðamenn að stundin hafi verið sú versta í lífi hans. Nærvera Guevara hafi gert hann kvíðinn. 

„Róaðu þig og miðaðu vel! Þú ert að fara að drepa mann!“ sagðist Terán, í samtali við blaðamenn síðar, hafa hugsað. „Svo tók ég skref aftur í átt að dyrunum, lokaði augunum og skaut.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×