Innlent

Engin á­stæða til að hamstra joð­töflur vegna ástandsins í Úkraínu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Geislavarnir ríkisins
Geislavarnir ríkisins Vísir/Vilhelm

Engin ástæða er til þess að hamstra joðtöflur hér á landi vegna stríðsástandins í Úkraínu, jafn vel þó að svo illa færi að kjarnavopni yrði beitt á svæðinu.

Þetta segir Sigurður M. Magnússon forstjóri Geislavarna Ríkisins sem ræddi mögulega kjarnorkuvá vegna stríðsins í Úkraínu í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag.

Fregnir hafa borist af því að aukin geislavirkni hafi mælst í grennd við kjarnorkuverið í Tjernobyl vegna umferðar rússneskra hersveita á svæðinu sem lokað var eftir kjarnorkuslysið árið 1986. Sigurður segir þessi aukna geislun sé tímabundin og muni hverfa á skömmum tíma.

„Svæðið er akkúrat þar sem er best fyrir skriðdreka sveitirnar að fara yfir og það er alveg rétt að þegar þær fóru yfir þetta svæði þá þyrlaðist upp heilmikið af geislavirkum efnum upp í loftið. Það hefur mælst aukin geislun í næsta nágrenni lokaða svæðisins.

Þessi aukning á geislavirkni á lokaða svæðinu hún er bara tímabundin og mun hverfa á skömmum tíma. Það er þannig að við getum fylgst með geisluninni á þessum svæðum,“ sagði Sigurður en einnig var rætt við Víði Reynisson yfirlögregluþjón hjá almannavörnum um mögulegar viðbragðsáætlanir breiðist stríðsátökin enn frekar út.

Fregnir hafa einnig borist af því að joðtöflur hafi rokið út úr apótekum hér á landi, ekki síst eftir að Vladímír Pútín Rússlandsforseti tilkynnti að hann hefði sett kjarnorkusveitir rússneska hersins í viðbragðsstöðu.

Mikil fjarlægð þýðir mikil þynning

Sigurður segir að það sé niðurstaða Geislavarna ríkisins og annarra samráðsaðila að engin þörf sé á því að fólk hér á landi taki inn joðtöflur. Joðtöflur verja skjaldkirtilinn fyrir geislun

„Við eigum mjög erfitt með að sjá fyrir okkur að það gæti orðið nokkrar þær aðstæður á Íslandi þó svo að kjarnavopni yrði neitt í Úkraínu að það kallaði á þörf fyrir að fólk tæki inn joðtöflur,“ sagði Sigurður.

„Ef að við hugsum þetta svona aðeins upphátt að ef að það springur kjarnavopn í Úkraínu þá er gríðarlega mikið af geislavirkum efnum sem fara út í umhverfið. Þau munu síðan berast með veðri og vindum til nálægra landa og við höfum reynsluna frá Tsjernobyl.“

Bílalest Rússa á Krímskaga.Vísir/AP

Mikið púður er lagt í mælingu á geislun og sagði Sigurður að miðað við reynsluna frá Tsjernobyl mætti gera ráð fyrir að ef kjarnavopni yrði beitt myndi einhver geislun hér mælast fyrst að lá sgmarki fimm dögum síðar.

„En við verðum að hafa í huga að fjarlægðin er gríðarlega mikil og þynningin er gríðarleg. Þannig að við sjáum ekki fyrir okkur að þótt kjarnavopni yrði beitt í Úkraínu myndi það kalla á sérstakar varúðarráðstafanir á Íslandi en við fylgjust mjög grannt með öllu sem er að gerast á svæðinu.“

Það er engin ástæða til þess að hamstra joðtöflur á Íslandi?

„Við sjáum ekki ástæðu til þess miðað við þær aðstæður sem nú eru fyrir hendi.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×