Innlent

Sprakk á rúm­­lega tíu bílum í röð eftir sömu holuna

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Ökumaðurinn telur að nú búið sé að setja upp einhvers konar varúðarmerkingar við holuna.
Ökumaðurinn telur að nú búið sé að setja upp einhvers konar varúðarmerkingar við holuna. Vísir/Vilhelm

Fjöldi bíla sat fastur með sprungin dekk eftir holu á vegi í Kópavogi fyrr í kvöld. Ökumaður segist hafa talið rúmlega tíu bíla í bílaröðinni sem myndaðist, allir með sprungið á dekkjum.

„Á Arnarnesvegi, milli Rjúpnavegar og Fífuhvammsvegar, er risastór hola á veginum sem allir ættu að varast,“ segir íbúi í Íbúahóp Kópavogsbúa á Facebook. Fjöldi bíla sat fastur úti í kanti eftir að hafa lent í holu á veginum, sem virðist hafa verið nokkuð slæm ef marka má bílafjöldann sem varð holunni að bráð á svo skömmum tíma.

Anna Krasniqi var meðal ökumanna en á bíl hennar sprungu tvö dekk hægra megin. Hún segist hafa talið þrettán bíla í röðinni; allir höfðu lent í því sama.

„Ég sá ekki holuna, ég var bara að keyra og svo heyrðist eitthvað. Svo sá ég allt fólkið fyrir framan mig sem hafði lent í því sama. Þá fattaði ég að það væri örugglega einhver hola sem allir væru að lenda í,“ segir Anna í samtali við fréttastofu.

Hún segir að sami dráttarbíll hafi komið líklega tíu sinnum og hún þurfti því að bíða nokkuð. Anna ræddi við ökumenn á vettvangi og segir að flestir hafi tekið þessu með stóískri ró. Sem betur fer hafi ekki farið verr en fólk var sammála um að það hafi ekki séð svo slæma holu áður.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×