Fótbolti

Buffon áfram í marki Parma þar til að hann verður 46 ára

Sindri Sverrisson skrifar
Gianluigi Buffon eldist eins og gott rauðvín.
Gianluigi Buffon eldist eins og gott rauðvín. Getty/Luca Amedeo

Ítalski markvörðurinn Gianluigi Buffon er ekki á þeim buxunum að hætta að spila fótbolta og hefur nú skrifað undir nýjan samning við Parma um að spila með liðinu til ársins 2024.

Það þýðir að Buffon, sem er 44 ára gamall, ætlar sér að spila að minnsta kosti þar til að hann verður 46 ára.

„Þetta er dásamlegur dagur fyrir mig og mína fjölskyldu. Ég vona að borgarbúar og allir stuðningsmennirnir gleðjist yfir þessu,“ sagði Buffon.

Buffon gekk í raðir Parma, sem leikur í næstefstu deild Ítalíu, í fyrra og skrifaði undir samning til tveggja ára.

Hjá Parma hófst ævintýralegur ferill hans árið 1995 en Buffon var seldur fyrir metfé frá Parma til Juventus árið 2001 og lék þar í 17 ár. Hann lék eina leiktíð með PSG og aftur eina leiktíð með Juventus áður en hann sneri heim til Parma.

Buffon lék 176 A-landsleiki áður en hann lagði landsliðshanskana á hilluna árið 2018. Hann á að baki 657 leiki í efstu deild Ítalíu, sem er met.

Buffon vann 10 Ítalíumeistaratitla með Juventus, jafnvel þó að titlarnir sem teknir voru af félaginu 2005 og 2006 vegna mútugreiðslna séu ekki taldir með.

Hann varð jafnframt franskur meistari með PSG 2019 auk þess að hafa unnið til fjölda fleiri verðlauna á ferlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×