Fótbolti

UEFA ætlar að taka úr­slita­leik Meistara­deildarinnar af Rússum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Afar ólíklegt þykir að úrslitaleikur Meistaradeildar Evrópu fari fram á Gazprom leikvanginum í St. Pétursborg í vor.
Afar ólíklegt þykir að úrslitaleikur Meistaradeildar Evrópu fari fram á Gazprom leikvanginum í St. Pétursborg í vor. getty/Daniele Badolato

Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, ætlar að taka úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu af Rússum vegna innrásar þeirra í Úkraínu.

Ýmsir fjölmiðlar hafa greint frá þessu í dag. Lokaákvörðunin um úrslitaleikinn verður tekin á neyðarfundi sem UEFA hefur boðað til á morgun. UEFA sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem innrás Rússa í Úkraínu var fordæmd.

Úrslitaleikur Meistaradeildarinnar átti að fara fram á Gazprom leikvanginum í St. Pétursborg 28. maí en UEFA þarf nú að öllum líkindum að finna nýjan leikstað fyrir leikinn.

Ef leikurinn verður færður verður þetta þriðja árið í röð sem úrslitaleikur Meistaradeildarinnar fer ekki fram á þeim velli sem hann átti upphaflega að fara fram. Fyrir tveimur árum átti úrslitaleikurinn að fara fram í Istanbúl en var færður á Ljósvang í Lissabon vegna kórónuveirufaraldursins. Í fyrra var leikurinn svo aftur færður til Portúgals, á Drekavelli í Porto.

Keppni í úkraínsku úrvalsdeildinni, sem átti að hefjast um helgina eftir vetrarfrí, hefur verið frestað vegna innrásar Rússa. Óvissa ríkir með ýmsa alþjóðlega leiki vegna hennar. Forseti sænska knattspyrnusambandsins, Karl-Erik Karlsson, sagði til að mynda að það væri nánast óhugsandi að sænska karlalandsliðið myndi mæta því rússneska í umspili um sæti á HM í næsta mánuði eins og möugleiki er á.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×