„Það er gaman að keppa á móti svona góðu liði en leiðinlegt að tapa svona stórt. Það er margt sem við getum lært frá þessum leik. Við getum séð hvað við getum bætt. Þetta kom kannski ekki á óvart en skemmtileg upplifun,“ sagði Karólína Lea Vilhjálmsdóttir á blaðamannafundi eftir leikinn.
Karólína Lea var spurð út í það hvort þær bandarísku hefðu verið sterkari en hún bjóst við.
„Þær eru vissulega með fínt lið en ég held að við hefðum líka geta gert færri mistök og haldið boltanum betur. Ég reyni bara að hugsa um okkar leik en þær voru bata fína,“ sagði Karólína Lea.
„Auðvitað er maður ánægður þegar maður fær að byrja alla leiki. Maður getur aldrei verið ósáttur með að fá traust frá þjálfaranum. Ég er alla vega mjög þakklát fyrir traustið í þessu móti,“ sagði Karólína.
„Ég er að þroskast mikið sem leikmaður núna er að fá að vinna með það að spila tíuna í blandi við að spila áttuna. Ég held að ég þurfi að einbeita mér að því að bæta mig í því að vera þessi skapandi leikmaður. Það er gott að fá mínútur,“ sagði Karólína.
Er þetta stóra tap eitthvað að fara að sitja í stelpunum eftir gott gengi þar á undan.
„Auðvitað hatar maður að tapa og mér finnst það ekki skemmtilegt. Þetta er bara æfingarmót og við notum þetta mót bara til að æfa liðið og spila okkur saman. Nota þetta fyrir EM og undankeppni HM. Þetta er vara búið á morgun,“ sagði Karólína.
„Þetta var gríðarlega skemmtilegt mót og líka skemmtilegt að koma svona í aðra menningu. Gott líka að hafa þennan tímamismun því það tekur mann aðeins frá raunveruleikanum. Þetta var mjög skemmtileg reynsla og vonandi höldum við áfram að gera þetta á hverju ári,“ sagði Karólína.