Fótbolti

Stór­tap hjá stelpunum okkar í úr­slita­leiknum: Sjáðu mörkin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sif Atladóttir reynir að stoppa Mallory Pugh sem skoraði tvívegis í leiknum í nótt.
Sif Atladóttir reynir að stoppa Mallory Pugh sem skoraði tvívegis í leiknum í nótt. AP/Jeffrey McWhorter

Íslenska kvennalandsliðið tapaði 5-0 á móti Bandaríkjunum í Dallas í nótt í úrslitaleik SheBelieves Cup en íslenska liðinu nægði jafntefli til að vinna mótið.

Íslenska liðið var búið að vinna sex leiki í röð fyrir leikinn þar af tvo fyrstu leiki sína á þessu móti gegn Nýja-Sjálandi og Tékklandi.

Stelpurnar okkar áttu litla möguleika á móti heimsmeisturunum sem voru að leik sinn fyrsta leik eftir að þær náðu sögulegu samkomulagi um að fá jafnmikið borgað og landsliðskarlarnir.

Vetrarlegar aðstæður hjálpuðu því miður ekki okkar konum en það var fimm stiga frost þegar leikurinn byrjaði.

Bandaríska liðið var 2-0 yfir í hálfleik eftir tvö mörk á síðustu tíu mínútum hálfleiksins og skoraði síðan þriðja markið sitt eftir klukkutíma leik.

Sandra Sigurðardóttir stóð í marki íslenska liðsins í fyrri hálfleiknum en í hálfleik kom Cecilía Rán Rúnarsdóttir í markið. Cecilía hafði haldið marki sínu hreinu í 378 mínútur fyrir leikinn en fékk á sig þrjú mörk í seinni hálfleiknum.

Catarina Macario skoraði tvö mörk fyrir bandaríska liðið í fyrri hálfleiknum og lagði síðan upp annað af tveimur mörkum Mallory Pugh í þeim seinni. Kristie Mewis skoraði síðan fimmta og síðasta markið á 88. mínútu leiksins.

Bandarísku stelpurnar áttu 24 skot í leiknum þar af fóru 12 þeirra á markið. Íslenska liðið reyndi átta skot en aðeins eitt þeirra fór á markið.

Hér fyrir neðan má sjá mörkin fimm sem bandaríska liðið skoraði í leiknum í nótt.

Klippa: Mörkin hjá bandarísku stelpunum á móti Íslandi



Fleiri fréttir

Sjá meira


×