Innlent

Segir Páleyju gengna til liðs við „skæru­liða­deild Sam­herja“

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Páley hefur ekki viljað tjá sig um málið. 
Páley hefur ekki viljað tjá sig um málið.  vísir/vilhelm/sigurjón

Nokkuð fjöl­menn mót­mæli fóru fram bæði í Reykja­vík og á Akur­eyri í dag vegna rann­sóknar lög­reglu á fjórum blaða­mönnum og um­fjöllun þeirra. Ræðu­menn vildu meina að lög­regla væri að vega að tjáningar­frelsinu og sumir gengu svo langt að kalla til­burði hennar fasíska.

„Í hvaða heimi lifum við þar sem þetta getur gerst fyrir framan nefið á okkur?“ spurði Kristinn Hrafns­son, rit­stjóri Wiki­leaks, á mót­mæla­fundi í dag. Frétta­stofa var á svæðinu og ræddi meðal annars við Kristinn og einn blaða­mannanna sem hefur réttar­stöðu sak­bornings í rann­sókninni.

Fjallað var um mót­mælin í kvöld­fréttum Stöðvar 2 og má sjá í mynd­bandinu hér fyrir neðan hvernig and­rúms­loftið var á Austur­velli í dag. Neðst í fréttinni er síðan að finna ræðu Kristins á mót­mæla­fundinum í heild sinni.

Á fjórða hundrað manns var mætt á mót­mælin á Austur­velli.

„Það er mjög merki­legt að sjá með svona af­gerandi hætti hvað fólk er til­búið að koma út í frost og nístings­kulda til að standa með prinsippinu sem blaða­mennska og frjáls fjöl­miðlun og tjáningar­frelsið er,“ sagði Aðal­steinn Kjartans­son, blaða­maður Stundarinnar, sem er einn þeirra fjögurra sem lög­regla hefur boðað í skýrslu­töku.

Eitt af fyrstu merkjum fasismans

Kristinn flutti þrumu­ræðu á mót­mæla­fundinum í dag. Hann telur ljóst að lög­reglan sé að reyna að þagga niður í blaða­mönnum með rann­sókn sinni.

„Og hvaða merki er það? Það er eitt af fyrstu merkjum þegar fas­isminn fer að bæla á sér í sam­fé­laginu. Þegar menn fara að kæfa niður lýð­ræðið þá fara þeir alltaf fyrst í blaða­mennskuna og blaða­mennina svo að enginn sé til að segja frá,“ sagði Kristinn í ræðu sinni.

Kristinn efast ekki um að Sam­herja­menn hafi sterk tengsl við lög­regluna á Norður­landi eystra og skýtur föstum skotum að Páleyju Borgþórsdóttur lögreglustjóra:

„Ég get ekki sagt annað en það að lög­reglu­stýran nyrðra er gengin í björg með sam­herja­mönnum. Hún er beisikk­lí gengin í lið með skæru­liða­deild Sam­herja í þessu máli,“ sagði Kristinn í sam­tali við frétta­stofu eftir mót­mæla­fundinn.

Hér má sjá ræðu Kristins frá því í dag í heild sinni:



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×