Fótbolti

Forseti LaLiga: Mbappe og Haaland fara til Real Madrid í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kylian Mbappe fagnar sigurmarki sínu á móti Real Madrid í Meistaradeildinni í vikunni.
Kylian Mbappe fagnar sigurmarki sínu á móti Real Madrid í Meistaradeildinni í vikunni. AP/Thibault Camus

Javier Tebas, forseti spænsku deildarinnar, er með munninn fyrir neðan nefið og hann hefur nú komið með stóra yfirlýsingu varðandi framtíð franska framherjans Kylian Mbappe.

Tebas segir að það sé öruggt að Mbappe fari til Real Madrid í sumar. Samningur Mbappe og Paris Saint Germain rennur út í sumar og hann hefur lengi verið orðaður við Real Madrid.

Á dögunum láku út upplýsingar um svakalegan samning Mbappe og Real Madrid en hann sjálfur hefur alltaf sagt að hann ákveði sig ekki fyrr en í sumar.

Tebas var ekki alveg hættur í yfirlýsingunum því hann sagði líka að Kylian Mbappe yrði ekki eini stjörnuleikmaðurinn sem Real Madrid fær til sín í sumar.

„Madrid mun fá Mbappe og [Erling] Haaland í sumar þar sem að hin liðin [Barcelona og Juventus] eru nánast á hausnum. Koma Mbappe eru frábærar fréttir fyrir LaLiga enda það besta sem gæti komið fyrir deildina,“ sagði Javier Tebas.

Tebas dró reyndar aðeins í land seinna í viðtalinu varðandi þessar yfirlýsingar og sagðist ekki vera með þetta staðfest.

„Ég hef engar upplýsingar um Mbappe en ég hef ég séð ófá dæmi um leikmenn sem hafa átt sex mánuði eftir af samningi sínum og hafa ekki endursamið við liðið, heldur farið í annað félag,“ sagði Tebas.

PSG hafnaði tvö hundruð milljóna tilboði Real Madrid í Mbappe síðasta sumar. Fjölskylda Mbappe hefur verið í viðræðum um stutta framlenginginu á samningi hans en enginn samningur er í höfn.

Hinn 23 ára framherji sýndi snilli sína í Meistaradeildinni í vikunni þegar einstaklingsframtak hans skilaði honum sigurmarkinu í fyrri leik PSG og Real Madrid í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×