Enski boltinn

Conte kvartar: „Veiktum hópinn í janúar“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Antonio Conte er ekki sáttur með breytingarnar sem urðu á leikmannahópi Tottenham í janúarglugganum.
Antonio Conte er ekki sáttur með breytingarnar sem urðu á leikmannahópi Tottenham í janúarglugganum. getty/Tottenham Hotspur FC

Antonio Conte, knattspyrnustjóri Tottenham, segist vera með lakari leikmannahóp í höndunum eftir félagaskiptagluggann í janúar en fyrir hann.

Nokkrar breytingar urðu á leikmannahópi Tottenham í janúar. Tanguy Ndombele, Giovani lo Celso og Bryan Gil voru lánaðir í burtu og Dele Alli fór á frjálsri sölu til Everton. Tottenham fékk hins vegar Dejan Kulusevski og Rodrigo Bentancur frá Juventus.

Conte sendi forráðamönnum Tottenham tóninn í viðtali við Sky Sports á Ítalíu og segist hafa áttað sig á sýn félagsins.

„Það sem gerðist í janúar var ekki auðvelt. Við misstum fjóra leikmenn, fjóra mikilvæga menn fyrir Tottenham, en fengum bara tvo. Þannig að í staðinn fyrir að styrkja hópinn veiktum við hann,“ sagði Conte.

„Bentancur og Kulusevski eru fullkomnir leikmenn fyrir Tottenham því félagið leitar að ungum leikmönnum sem geta vaxið og þroskast, ekki leikmönnum sem eru tilbúnir. Þannig er sýn og hugmyndafræði félagsins. Ef þú ætlar að bæta þig hratt þarftu óhjákvæmilega leikmenn með mikla reynslu. En ég hef áttað mig á að þetta er sýn félagsins.“

Conte tók við Tottenham 9. nóvember eftir að Nuno Espirito Santo var látinn taka pokann sinn. Ítalinn sneri gengi Spurs snögglega við en að undanförnu hefur gefið á bátinn og liðið tapað þremur leikjum í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×