Fótbolti

Þrír af hverjum fjórum leikmönnum vilja ekki HM á tveggja ára fresti

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Um það bil 75 prósent aðspurðra voru mótfallnir hugmyndinni um HM á tveggja ára fresti.
Um það bil 75 prósent aðspurðra voru mótfallnir hugmyndinni um HM á tveggja ára fresti. Marc Atkins/Getty Images

Nýjar kannanir meðal leikmannasamtakanna FIFPRO og sambærilegum samtökum innan FIFA benda til þess að allt að þrír af hverjum fjórum karlkyns leikmönnum eru mótfallnir hugmyndinni um að halda HM á tveggja ára fresti í stað fjögurra.

Eins og áður hefur verið greint frá vill Alþjóðaknattspyrnusambandið FIFA að Heimsmeistaramótið í knattspyrnu verði haldið á tveggja ára fresti í stað fjögurra.

Yfir þúsund leikmenn af yfir 70 þjóðernum í sex heimsálfum tóku þátt í könnuninni. Niðurstöðurnar sýna að mest er andstaðan í Evrópu og Asíu, en hún er mun minni í Suður- og Norður-Ameríku og Afríku.

Alls voru um 77 prósent aðspurðra í Evrópu og Asíu mótfallnir hugmyndinni. Í Ameríku voru um 63 prósent aðspurðra mótfallnir hugmyndinni, en í Afríku setti tæplega helmingur sig upp á móti henni, eða um 49 prósent.

Restin af atkvæðunum skiptist á milli þess að mótið yrði haldið á tveggja ára fresti annars vegar, og á þriggja ára fresti hins vegar.

Í könnuninni kom einnig fram að fjórum af hverjum fimm leikmönnum þykir deildarkeppnin sem þeir leika í eða Heimsmeistaramótið í núverandi mynd skemmtilegasta mótið.

Þá vekur einnig athygli að aðeins 21 prósent aðspurðra telja að hlustað sé á leikmenn og heilsa og velferð þeirra tekin inn í myndina þegar kemur að alþjóðlegri knattspyrnustjórn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×