Fótbolti

Lið Birkis gerði jafn­tefli við Besiktas í dramatískum leik

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Birkir Bjarnason er að gera það gott í Tyrklandi.
Birkir Bjarnason er að gera það gott í Tyrklandi. Sezgin Pancar/Getty Images

Birkir Bjarnason og liðsfélagar hans í Adana Demirspor gerðu jafntefli við stórlið Besiktas í tyrknesku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Lokatölur 1-1 en leikurinn var vægast sagt dramatískur.

Birkir hóf leikinn í holunni á bakvið fremsta mann sem var líkt og svo oft áður hinn ítalski Mario Balotelli. Gestirnir hófu leikinn hins vegar betur og kom Brasilíumaðurinn Alex Teixeira kom gestunum yfir eftir rúmlega hálftíma leik.

Heimamenn héldu að þeir hefðu jafnað metin undir lok fyrri hálfleiks en allt kom fyrir ekki, markið dæmt af þar sem Balotelli gerðist sekur um brot í aðdraganda þess.

Mikill hiti var undir lok fyrri hálfleiks en alls fóru fjögur gul spjöld á loft á síðustu mínútu fyrri hálfleiks. Staðan hins vegar enn 1-0 Besiktas í vil þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Það gekk lítið upp sóknarlega hjá heimamönnum og var Birkir meðal fjögurra leikmanna sem var tekinn af velli er Demirspor leitaði að jöfnunarmarki. Þegar komnar voru tvær mínútur fram yfir venjulegan leiktíma jafnaði tyrkneski varnarmaðurinn Samet Akaydin jafnaði metin eftir hornspyrnu Tayyib Sanuc.

Akaydin hélt að hann hefði svo tryggt heimamönnum sigurinn þegar hann kom boltanum í netið á 96. mínútu en er markið var skoðað af myndbandsdómara leiksins kom í ljós að varnarmaðurinn var rangstæður og Besiktas slapp með skrekkinn, lokatölur 1-1.

Stigið lyfti Demirspor upp í 3. sæti deildarinnar með 41 stig eftir 25 leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×