Fótbolti

Bjargaði kisa af vellinum í miðjum leik

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Knattspyrnumaðurinn Jason Kerr reynir hér að grípa í Topsey.
Knattspyrnumaðurinn Jason Kerr reynir hér að grípa í Topsey. Getty/Zac GoodwinZac Goodwin

Knattspyrnumaðurinn Jason Kerr kom kettinum Topsey til bjargar þegar hann hljóp inn á fótboltavöll í Hillsborough í gærkvöld. Topsey var þar með bjargað frá fljúgandi fótbolta leikmanna Sheffield Wednesday og Wigan Athletic sem öttu þar kappi. 

Topsey hafði verið týnd svo mánuðum skipti en hún strauk að heiman í júní síðastliðnum á meðan eigandi hennar, Alison Jubb, var að flytja hana á kattahótel í suðurhluta Sheffield. Topsey flúði frá Jubb um 4 kílómetrum frá fótboltavellinum þar sem hún fannst svo í gær.

Topsey var komið í fang eiganda síns að nýju eftir að hún hafði verið flutt til dýralæknis og hann skannað örflögu Tospey. 

Jubb segir í samtali við breska ríkisútvarpið að tengdadóttir hennar hafi hringt í hana í gærkvöldi, en umrædd tengdadóttir hafði verið að horfa á leikinn milli Sheffield Wednesday og Wigan Athletic. Tengadóttir hennar hafi sagt henni frá atvikinu en Jubb bara hrist það af sér. 

Þegar dýralæknirinn hafi svo hringt í hana í morgun hafi hún loks trúað því að Topsey væri komin í leitirnar.

„Það var fyrsta skiptið sem ég trúði því að þetta væri raunverulega hún.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×