Enski boltinn

Salah hvatti til hefnda í klefanum

Sindri Sverrisson skrifar
Mohamed Salah var vitaskuld vonsvikinn þrátt fyrir að hafa fengið silfurmedalíu um hálsinn eftir úrslitaleik Afríkumótsins.
Mohamed Salah var vitaskuld vonsvikinn þrátt fyrir að hafa fengið silfurmedalíu um hálsinn eftir úrslitaleik Afríkumótsins. Getty

Mohamed Salah reyndi sitt besta til þess að hughreysta liðsfélaga sína í egypska landsliðinu í búningsklefanum eftir sárt tap gegn Senegal í úrslitaleik Afríkumótsins.

Úrslitin réðust í vítaspyrnukeppni og Salah átti að taka síðustu vítaspyrnu Egypta en ekki kom til þess þar sem að Sadio Mané hafði þá þegar tryggt Senegal sigurinn.

Í klefanum eftir leik tók Salah til máls, eins og sjá má hér að neðan, og minnti félaga sína á það að í mars væri tækifæri til hefnda því þá spila Egyptaland og Senegal tvo umspilsleiki um sæti á HM í Katar í lok þessa árs.

„Við spiluðum fjóra 120 mínútna leiki á 12 dögum,“ sagði Salah eftir tapið í úrslitaleiknum. „En þetta tilheyrir fortíðinni. Við eigum núna leikina við þá í næsta mánuði og ef Allah lofar þá munum við ná fram hefndum þar,“ sagði Liverpool-stjarnan.

Egyptaland og Senegal mætast 23. og 29. mars í einu af fimm einvígum Afríkuþjóða um sæti á HM.

Fram að því verður Salah hins vegar með Liverpool og hann er þegar mættur aftur til æfinga og gæti mögulega verið með liðinu í leiknum við Leicester á fimmtudaginn í ensku úrvalsdeildinni.


Tengdar fréttir

Dómarinn bauð Mo Salah flautuna sína og spjöldin

Það var ekki kvöld Mohamed Salah í gær þegar hann tapaði úrslitaleik Afríkukeppninnar. Liverpool maðurinn hefur átt frábært tímabil en upplifði ekki drauminn sinn að vinna titil með Egyptalandi.

Senegal Afríkumeistari

Senegal varð í kvöld Afríkumeistari í knattspyrnu eftir sigur á Egyptalandi í vítaspyrnukeppni. Segja má að markverðir beggja liða hafi stolið sviðsljósinu en staðan var markalaus eftir venjulegan leiktíma og framlengingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×