Erlent

Fullyrt að Íslendingur hafi látist í eldsvoða á Tenerife

Eiður Þór Árnason skrifar
Costa Adeje er vinsæll áfangastaður Íslendinga. 
Costa Adeje er vinsæll áfangastaður Íslendinga.  Getty/Adél Békefi

Íslenskur ríkisborgari um fimmtugt er sagður hafa látist í eldsvoða í bílskúr í heimahúsi við Costa Adeje á Tenerife á sunnudag.

Frá þessu er greint í frétt spænska miðilsins El Dia. Sveinn H. Guðmarsson, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, segir í samtali við Vísi að slíkt mál hafi ekki enn komið inn á borð borgaraþjónustunnar. DV greindi fyrst frá íslenskra miðla.

Talið að hann hafi sofnað í bílnum 

Að sögn spænska miðilsins fannst brunnið lík kaupsýslumanns í bílskúrnum þegar slökkviliðsmenn reyndu að slökkva eldinn á sunnudag. Tilkynning hafi borist um eldsvoðann klukkan 7:30 á staðartíma og rannsókn lögreglu bendi ekki til þess að neitt saknæmt hafi átt sér stað. Í gær kom fram að þrjár bifreiðar hafi brunnið í bílskúrnum. Samkvæmt heimildum DV var hinn látni búsettur á eyjunni ásamt fjölskyldu sinni.

El Dia fullyrðir að krufning bendi til að maðurinn hafi verið undir áhrifum áfengis þegar hann lést. Þá hafi maðurinn mögulega verið að reykja sígarettu inn í bifreið sinni þegar hann sofnaði. Bílskúrinn er sagður standa við lúxusvillu á Kurt Konrad Mayer-stræti en í gær mátti sjá bifreið fyrir utan sem hafði gjöreyðilagst í eldsvoðanum. 

Fréttin hefur verið uppfærð: Maðurinn sem lést hét Haraldur Logi Hrafnkelsson.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×