Breiðablik lagði B-lið enska úrvalsdeildarfélagsins Brentford á dögunum. Í kvöld var mótherjinn töluvert sterkari en Midtjylland er í harðri baráttu um danska meistaratitilinn.
Það byrjaði ekki byrlega fyrir Blika sem voru lentir 3-0 undir eftir aðeins rúmlega hálftíma leik. Marrony kom danska liðinu yfir og Victor Lind skoraði svo tvívegis í kjölfarið. Útlitið því frekar dökkt fyrir Kópavogsliðið er gengið var til búningsherbergja.

Kristinn Steindórsson hóf endurkomu Breiðabliks með marki á 53. mínútu leiksins. Þegar átta mínútur voru til leiksloka minnkaði Gísli Eyjólfsson muninn í 3-2 og nokkrum mínútum síðar jafnaði Benedikt Warén metin.
Staðan því 3-3 er flautað var til leiksloka. Í kjölfarið var farið beint í vítaspyrnukeppni þar sem Breiðablik hafði betur 5-4. Keppnina má sjá hér að neðan.
Blikar fengu eitt stig fyrir jafntefli kvöldsins og annað stig fyrir að vinna vítaspyrnukeppnina. Breiðablik er því með fimm stig eftir tvo leiki á Atlantic Cup.