Fótbolti

Tveir landsliðsmenn Hondúras þurftu að fara af velli vegna kulda

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sean Johnson stóð í marki Bandaríkjanna í gær og það var kalt eins og sést á þessari mynd.
Sean Johnson stóð í marki Bandaríkjanna í gær og það var kalt eins og sést á þessari mynd. AP/Andy Clayton-King

Það var mjög kalt í Saint Paul í Minnesota fylki í gær þegar bandaríska landsliðið vann 3-0 sigur á Hondúras í undankeppni HM.

Það var sautján stiga frost þegar leikurinn hófst og vindkælingin var allt að 25 stiga frosti. Bandaríska veðurstofan gaf meira að segja út viðvörun vegna vindkælingarinnar en kætt var á kali við að eyða tíu mínútum úti í þessu frosti.

Hondúras tók þrjá leikmenn af velli í hálfleik en það voru markvörðurinn Luis Lopez, miðjumaðurinn Diego Rodriguez og framherjinn Romell Quioto.

Knattspyrnusamband Hondúras staðfesti að tveir þeirra hafi þurft að fara af velli vegna kulda.

„Ég ætla ekki að dæma mitt lið, hvorki leikinn eða frammistöðu leikmanna. Það er ekki mögulegt því það er ekki hægt eftir að hafa þurft að spila við þessar aðstæður,“ sagði landsliðsþjálfarinn Hernan Dario Gomez.

„Inn í klefa eru leikmann að fá næringu í æð og margir þeirra eru sárþjáðir,“ sagði Gomez.

Bandaríska liðið vann leikinn 3-0 en tvö af mörkunum komu í fyrri hálfleik. Mörkin skoruðu þeir Weston McKennie, Walker Zimmerman og Chelsea maðurinn Christian Pulisic.

Bandaríkjamenn eru í góðum málum í öðru sæti Norður- og Mið-Ameríkuriðilsins en Hondúras hefur ekki enn unnið leik og situr með þrjú stig í neðsta sætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×