„Ef ég býð mig fram og vinn, þá munum við koma fram við þetta fólk frá 6.janúar af sanngirni. Við munum koma fram við þau af sanngirni. Ef það þýðir náðanir þá munum við náða. Því það er verið að koma fram við þau af ósanngirni,“ sagði Trump á fjöldafundinum í gær sem var vel sóttur.
Slagorðið „Björgum Bandaríkjunum“ sást á spjöldum stuðningsmanna hans sem tóku vel á móti forsetanum fyrrverandi.

Þessi ummæli Trump endurspegla þann hug margra repúblikana að fyrirgefa ætti þeim sem réðust inn í þinghúsið í óeirðunum í fyrra. Ron DeSantis, ríkisstjóri Flórída og mögulegur forsetaframbjóðandi í kosningum 2024, sagði til dæmis að minningarathafnir sem haldnar voru þegar eitt ár var liðið frá atburðunum væru tilraun til að sverta stuðningsmenn Trump.
Meira en 700 manns voru ákærðir fyrir sinn þátt í óeirðunum þar sem fimm létust og 138 lögreglumenn voru meðal slasaðra. Nefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, sem rannsakar atburðina, hefur stefnt fjölda einstaklinga og félagasamtökum sem hluti af rannsókn sinni og búist er verið að niðurstöður þeirra rannsóknar verði birtar í sumar.
Á fundinum sagði Trump ekki beint út að hann ætlaði sér að bjóða sig fram til forseta árið 2024 en sagði að þá „myndu þau ná Hvíta húsinu aftur.“ Hann hefur margoft daðrað við framboð og heldur reglulega fjöldafundi með sínum stuðningsmönnum.
Þá nýtti Trump einnig tækifærið og skaut föstum skotum að þeim saksóknurum sem eru að rannsaka viðskiptaveldi hans og kallaði eftir „stærstu mótmælum nokkurn tíman“ ef saksóknararnir myndu „gera eitthvað rangt eða ólöglegt.“