Fótbolti

Kom Búrkína Fasó í undan­úr­slit en fær ekki að taka þátt í þeim

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Dango Ouattara (til hægri) fagnar sigurmarki sínu í kvöld.
Dango Ouattara (til hægri) fagnar sigurmarki sínu í kvöld. EPA-EFE/FOOTOGRAFIIA

Hinn 19 ára gamli Dango Ouattara átti einkar áhugaverðan leik er Búrkína Fasó komst í undanúrslit Afríkukeppninnar þökk sé 1-0 sigri á Túnis í kvöld. Outtara skoraði sigurmarkið ásamt því að næla sér í rautt spjald.

Það stefndi í að fyrri hálfleikur yrði markalaus en það voru komnar þrjár mínútur fram yfir venjulegan leiktíma þegar Outtara lék á mann og annan áður en hann átti skot sem fór af varnarmanni og í netið. Búrkína Fasó 1-0 yfir er liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik.

Túnis gerði hvað það gat til að jafna metin í síðari hálfleik, Wahbi Khazri vildi fá vítaspyrnu eftir að hann féll í teignum en dómari leiksins var ekki sammála.

Það var svo á 82. mínútu sem Ouattara henti sér í groddaralega tæklingu. Dómari leiksins skoðaði atvikið í myndbandsskjánum á hliðarlínunni og ákvað í kjölfarið að sýna Ouattara reisupassann.

Aðeins voru átta mínútur til leiksloka og tókst Túnis ekki að nýta tækifærið og jafna metin, lokatölur 1-0 Búrkína Fasó í vil og liðið því komið í undanúrslit. Því miður fyrir Ouattara fær hann ekki tækifæri til að skjóta liðinu í úrslit.

Fyrr í kvöld komst Kamerún í undanúrslit. Á morgun kemur svo í ljós hvaða tvö lönd fylgja þeim áfram, Egyptaland mætir Marokkó og Senegal mætir Miðbaugs-Gíneu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×