Innlent

Telur að Ís­lendingar muni fyrir­gefa Dönum

Snorri Másson og Viktor Örn Ásgeirsson skrifa
Hrannar Björn Arnarsson formaður Norræna félgasins.
Hrannar Björn Arnarsson formaður Norræna félgasins. Stöð 2

Formaður Norræna félagsins telur ákvörðun Hagkaupa um að fresta Dönskum dögum í ljósi aðstæðna ekki til marks um stækkandi gjá milli Danmerkur og Íslands. Hann telur að Íslendingar muni fyrirgefa nágrönnum sínum meintan grikk á EM í gær, fyrr en síðar.

Það fór líklega fram hjá fæstum Íslendingum í gær þegar Danir töpuðu fyrir Frökkum í mikilvægum leik á Evrópumótinu í handbolta. Með sigri Dana hefðu Íslendingar komist í undanúrslitin á EM.

Verslunarkeðjan Hagkaup hefur árlega haldið upp á Danska daga snemma árs þar sem boðið er upp á aukið úrval af dönskum vörum og verslanir skreyttar hátt og lágt með fána konungsríkisins. Hagkaup tóku hins vegar ákvörðun í dag um að fresta Dönskum dögum í ljósi aðstæðna.

Hrannar Björn Arnarsson, formaður Norræna félagsins, telur líklegt að Íslendingar fyrirgefi Dönum úrslitin von bráðar.

„Ég skil nú reyndar að menn vilji ekki selja danskar vörur rétt á meðan við erum að jafna okkur en mér fyndist kannski eðlilegra að við myndum snúa þessu bara upp í norræna veislu, af því að EM er í raun og veru norræn veisla – fjórir af sex á toppnum,“ segir Hrannar Björn.

Hrannar Björn segir að meira hefði verið í anda norrænnar samvinnu, hefði þjálfari Dana stillt upp sínu sterkasta liði fyrir leikinn en þjálfarinn hvíldi þrjá lykilleikmenn í leiknum.

„Við ætlumst til þess að Danir berjist fyrir og við berjumst fyrir þá og þannig held ég að það verði áfram. Við munum fyrirgefa þetta og ef við viljum hefna þá gerum við það á handboltavellinum,“ segir Hrannar Björn Arnarsson formaður Norræna félagsins.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.