Handbolti

Ísland grátlega nærri undanúrslitunum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Íslenska liðið leikur um fimmta sætið á föstudaginn.
Íslenska liðið leikur um fimmta sætið á föstudaginn. EPA-EFE/Zsolt Szigetvary

Íslenska karlalandsliðið í handbolta komst ekki áfram í undanúrslit Evrópumótsins í handbolta. Þess í stað mun liðið leika um fimmta sæti mótsins á föstudaginn.

Þetta varð ljóst eftir að Frakkar lögðu Dani í lokaleik milliriðils 1 í Búdapest í Ungverjalandi í kvöld. Lokatölur leiksins urðu 29-30 Frökkum í vil. Danska liðið var með yfirhöndina nær allan leikinn en þeir glutruðu niður töluverðu forskoti í blálokin.

Ísland þurfti að treysta á danskan sigur til þess að komast upp fyrir Frakka í annað sætið á innbyrðis viðureignum. Sigurinn tryggði einnig Frökkum efsta sæti milliriðilsins og mæta þeir Svíum á föstudaginn.

Danir þurfa hins vegar að sætta sig við annað sæti riðilsins og leik gegn tvöföldum Evrópumeisturum Spánverja í undanúrslitunum.

Ísland mætir Norðmönnum í leik um fimmta sæti mótsins á föstudaginn. Til mikils er að vinna í þeim leik en fimmta sætið gefur öruggt sæti á HM í handbolta sem haldið verður í Svíþjóð og Póllandi á næsta ári.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.